Innlent

Inga segir Mið­flokks­þing­menn hvorki hafa iðrast né sýnt hóg­værð

Heimir Már Pétursson skrifar

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem fékk mikla útreið í ummælum Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar á Klaustur barnum, segir þá hvorki hafa sýnt iðrun eða hógværð. Hún hafi ekki treyst sér inn í þingsal Alþingis í dag.

Hvernig líður þér í dag með endurkomu þessarra tveggja Miðflokksþingmanna?

„Bara illa, mjög svo. Það er bara þykkt andrúmsloft hérna og við vitum eiginlega ekkert hvernig við eigum að vera. Þeir koma bara svífandi inn eins og ekkert hafi í skorist og gera ekki einu sinni boð á undan sér. Þannig að þeir sem hefðu kannski viljað undirbúa þetta og taka á því einhvern veginn þeir fengu engin tækifæri til þess. Persónulega hef ég ekki stigið inn í þingsalinn í dag,” segir Inga.

Það sé með ólíkindum að mæta þessum mönnum  í þinghúsinu.

„Greinilega ristir siðferði þeirra ekki dýpra en raun ber vitni. Og við sem höfum mátt þola alveg ótrúlega ósvífna framkomu frá þessu fólki, þessum einstaklingum, við stöndum bara hér uppi varnarlaus,” segir formaður Flokks fólksins.

Það var greinilegt aðóvænt endurkoma tvímenninganna fékk mikiðá Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra sem í tvígang gekk að Gunnari Braga í þingsal í dag og hvíslaði að honum. Eftir seinna skiptið yfirgaf hún síðan þingsalinn í greinilegu uppnámi.

Inga gefur ekki mikið fyrir afsökunarbeiðnir Gunnars Braga og Bergþórs.

„Mér finnst þeir yfir höfuð ekki hafa af heilindum beðið einn eða neinn afsökunar. Mér finnst þetta hafa verið heimatilbúið og engan veginn sannfærandi á nokkrun hátt. Vegna þess að áður en farið var að birta þessar Klaustur upptökur höfðu þeir ekkert til að biðjast afsökunar fyrir. Það er einhvern veginn eins og þeir séu búnir ljóst og leynt frá þessum tíma að búa til fórnarlömb úr sér,” segir Inga.

Þeir hefðu að minnsta kosti átt á sýna þingi og þjóð þá virðingu að halda sig frá Alþingi þar til siðanefnd þingsins kláraði að afgreiða þeirra mál. Þeir hafi hins vegar hvorki sýnt iðrun né hógværð.

„Já, nákvæmlega. Þeir hafa hvorki sýnt iðrun eða hógværð. Mér finnst þeir einkennast meira af yfirgengilegum hroka,” segir Inga Sæland.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.