Erlent

Stórt skref stigið í átt að friði

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá fundi Zalmay Khalilzad, formanni samninganefndar Bandaríkjanna með Ashraf Ghani, forsætisráðherra Afganistan, í Kabúl.
Frá fundi Zalmay Khalilzad, formanni samninganefndar Bandaríkjanna með Ashraf Ghani, forsætisráðherra Afganistan, í Kabúl. Vísir/AFP
Samninganefndir Bandaríkjamanna og talibana í Afganistan hafa komist að samkomulagi um ramma utan um friðarsamninga. Talibanar munu samkvæmt því samkomulagi ábyrgj­ast að hryðjuverkamenn starfi ekki á afganskri grund. Í kjölfarið gæti bandaríski herinn yfirgefið ríkið alfarið ef vopnahléi er komið á og Talibanar mæta til viðræðna við afgönsku ríkisstjórnina. Þetta samkomulag er afrakstur sex daga langra viðræðna í Katar.

Zalmay Khalilzad, sem leiðir samninganefnd Bandaríkjanna, sagði í viðtali við The New York Times í höfuðborginni Kabúl að það ætti enn eftir að fylla í ýmsar eyður svo þessi rammi yrði að samningi. „Talibanar hafa skuldbundið sig til að gera hvað sem þarf til þess að koma í veg fyrir að Afganistan verði leikvöllur alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka. Það er ánægjulegt. Við höfum næga trú á viðræðunum til þess að tilkynna um þetta nú,“ sagði Khal­ilzad aukinheldur.

Samkvæmt The New York Times eru níu ár liðin frá því farið var að reyna að koma á friði. Skrefið sem nú hefur verið stigið í átt að stríðslokum er það stærsta á þessum níu árum.

Ghani hélt ávarp eftir að Khal­ilzad hafði upplýst hann um stöðuna. Þar sagði hann að allir erlendir hermenn myndu í framtíðinni yfirgefa Afganistan, en það hefur verið helsta krafa talibana.

„Enginn Afgani vill erlendar hersveitir í landinu til frambúðar. Vera þeirra hér á þessari stundu er til komin vegna þess að hún er nauðsynleg. Þessi nauðsyn þarf að vera í sífelldri skoðun og endurskoðun,“ sagði Ghani.

Talibanar hafa alla tíð neitað að eiga í viðræðum við afgönsku stjórnina. Álíta hana „strengjabrúðu Bandaríkjanna“. Nú eru þeir hins vegar tilbúnir til viðræðna um leið og föst dagsetning er komin á brotthvarf Bandaríkjahers. 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×