Fótbolti

Liverpool menn lausir við eina af stjörnum Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller sparkar í höfuð Nicolas Tagliafico.
Thomas Müller sparkar í höfuð Nicolas Tagliafico. Getty/Erwin Spek

Liverpool þarf ekki að hafa áhyggjur af þýska landsliðsmanninum Thomas Müller þegar liðið mætir Bayern München í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í næsta mánuði.

UEFA hefur dæmt Thomas Müller í tveggja leikja bann eftir brot hans í leik Bayern og Ajax í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir áramót.

Bayern hefur áfrýjað banninu og því er enn smá von fyrir Thomas Müller að ná að minnsta kosti öðrum leiknum á móti Liverpool.

Thomas Müller sparkaði í höfuð Ajax-leikmannsins Nicolas Tagliafico og leit brotið vægast sagt illa út fyrir þennan 29 ára gamla Þjóðverja.

Þetta var fyrsta rauða spjaldið hjá Thomas Müller á ferlinum en hann hefur aldrei verið þekktur fyrir grófan leik inn á vellinum. Hann baðst líka afsökunar á samfélagsmiðlum eftir leikinn.„Ég vil biðja Nico Tagliafico afsökunar. Þetta var óviljandi. Ég óska þér góðs bata sem fyrst,“ skrifaði Thomas Müller.

Thomas Müller hefur skorað 42 mörk í 107 leikjum í Meistaradeildinni.

Leikir Liverpool og Bayern München fara fram 19. febrúar á Anfield í Liverpool og svo 13. mars á Allianz Arena í München.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.