Erlent

Bað Erdogan um að koma vel fram við Kúrda

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump og Erdogan á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í fyrra.
Trump og Erdogan á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í fyrra. EPA/OLIVIER HOSLET

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, bað Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, um að ráðast ekki á sýrlenska Kúrda eftir að bandarískir hermenn fara frá Sýrlandi. Áður en forsetarnir ræddu saman í síma í dag hafði Trump hótað því að leggja efnahag Tyrklands í rúst ef Tyrkir myndu ráðast á Kúrdana, sem hafa verið dyggir bandamenn Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi.

Sarah Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, gaf út yfirlýsingu um símtal forsetanna og sagði Trump hafa rætt við Erdogan um að þeir störfuðu saman að því að vinna í þeim áhyggjum sem Tyrkir hafa af norðurhluta Sýrlands.

Embættismenn í Tyrklandi segja þá hafa talað saman um að skapa öryggisvæði í norðurhluta Sýrlands og hvað eigi að verða um borgina Manbij í Sýrlandi, sem Tyrkir hafa lengi viljað hertaka af Kúrdum, sem tóku borgina af ISIS-liðum. Bandarískir og franskir hermenn voru sendir til borgarinnar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir árás Tyrkja á hana.

Þó sýrlenskir Kúrdar séu bandamenn Bandaríkjanna, líta yfirvöld í Tyrklandi á þá sem hryðjuverkamenn vegna tengsla þeirra við Verkamannaflokk Kúrda í Tyrklandi. Að undanförnu hafa Tyrkir ítrekað hótað því að gera þriðju innrásina í Sýrland og ráðast á Kúrda, sem þeir gerðu áður í Afrin-héraði.

Sjá einnig: Ætla sér að ráðast á Kúrda hvort sem bandarískir hermenn eru fyrir eða ekki

Hershöfðinginn Joseph Dunford, formaður hershöfðingjaráðs Hvíta hússins, mun funda með yfirmanni hershöfðingjaráðs Tyrklands á morgun. Þeir munu ræða stöðu mála í Sýrlandi, samkvæmt Politico.

Trump tók þá ákvörðun í síðasta mánuði að kalla hermenn Bandaríkjanna heim frá Sýrlandi og gerði hann það eftir að hafa rætt við Erdogan í síma. Ákvörðunin var tekin þvert á vilja og ráðleggingar ráðgjafa sinna og ráðherra. Jim Mattis, dómsmálaráðherra, sagði af sér vegna ákvörðunarinnar.

Kúrdar líta á ákvörðunina sem svik og óttast innrás Tyrkja, upprisu Íslamska ríkisins, sem enn er talið eiga tugi þúsunda vígamanna í Sýrlandi og Írak, og jafnvel hernaðaraðgerðir stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Þó hafa YPG leitað á náðir Assad-liða og Rússa, sem eru sömuleiðis andvígir innrás Tyrkja.


Tengdar fréttir

Hótar að leggja efnahag Tyrklands í rúst

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótar því að leggja efnahag Tyrklands í rúst, ráðist þeir gegn Kúrdum í Sýrlandi, eftir að Bandaríkjamenn draga herlið sitt til baka þar í landi eins og Trump hefur boðað.

Pompeo bjartsýnn á að hægt verði að tryggja öryggi Kúrda

Opinber heimsókn Pompeo er liður í ferðalagi hans um Miðausturlönd. Heimsóknum utanríkisráðherrans er ætlað að hughreysta bandamenn á svæðinu eftir að Bandaríkjaforseti tilkynnti skyndilega í síðasta mánuði að hann hygðist draga herlið sitt frá Sýralandi.

Erdogan neitaði að hitta Bolton

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, neitaði að hitta John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, í dag.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.