Aðalmeðferð í svokölluðu Skáksambandsmáli fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þrír eru ákærðir fyrir aðild að málinu, þeirra á meðal Sigurður Ragnar Kristinsson sem er ákærður fyrir að hafa skipulagt og fjármagnað innflutning á fimm kílóum af amfetamíni, 23,8 prósent að styrkleika, hingað til lands frá Spáni.
Sigurður játaði aðild að málinu við yfirheyrslur hjá lögreglu en neitaði sök við þingfestingu málsins og gekkst hvorki við tegund né því magni efna sem getið er um í ákæru. Fréttablaðið greindi frá því í nóvember að verjandi Sigurðar gerði meðal annars athugasemdir við vigtun þeirra efna sem haldlögð voru á af spænskum lögregluyfirvöldum en þeim mun hafa verið eytt áður en frekari greining, sem íslenska lögreglan óskaði eftir, hafði farið fram.
Sunna Elvira Þorkelsdóttir, fyrrverandi eiginkona Sigurðar Ragnars mun ekki vera á vitnalista ákæruvaldsins en þau bjuggu saman á Spáni þegar meint smygl var undirbúið. Sunna var í farbanni á Spáni á fyrri hluta ársins vegna rannsóknar málsins en hún lá þá á spítala eftir að hafa fallið milli hæða á heimili sínu.
