Innlent

60 prósenta munur á tilboðum í útsýnispallinn á Bolafjalli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Útsýnið verður einstakt að sögn bæjarstjórans.
Útsýnið verður einstakt að sögn bæjarstjórans. Landmótun, Argos og Sei

Fjögur tilboð bárust Bolungarvík í smíði og uppsetningu útsýnispalls á Bolafjalli. Tilboðin voru opnuð í Ráðhúsi Bolungarvíkur í gær.



Ístak bauð 276 milljónir króna, Köfunarþjónustan 198 milljónir króna, Eykt 159 milljónir króna og Þotan bauð 169 milljónir króna. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 193 milljónir króna en verkinu skal að fullu lokið 15. október 2021. Rúmlega sextíu prósenta munur er á lægsta og hæsta tilboði í verkið.



Meðal helstu verkþátta eru borun og festing bergbolta, smíði og uppsetning stálvirkis og frágangur yfirborðs. Engar athugasemdir höfðu borist Bolungarvík varðandi framkvæmd útboðsins í gær.



Bolvíkingar eiga von á því að tugir þúsunda ferðamanna muni nýta sér útsýnispallinn á fjallinu sem býður upp á útsýni inn í Jökulfirði. Bolafjall er 636 metrar á hæð og eitt fjallanna í kringum bæinn sem bæjarbúar eru stoltir af.



Teymi Landmótunar, Argos og Sei arkitekta bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni sem efnt var til í upphafi árs.



Engar formlegar tölur eru til um þann fjölda ferðamanna sem leggur leið sína á Bolafjall árlega. Þangað er hægt að aka upp á bílum utan þess tíma þegar snjór situr í fjallinu.



„Til Ísafjarðar koma yfir 100 þúsund skemmtiferðaskipafarþegar á hverju ári. Markhópurinn er gríðarlega stór. Við erum fullviss um að þetta séu tugir þúsunda.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×