Erlent

Biðjast af­­sökunar á að­­gerðum lög­­reglu í Stonewall upp­­reisninni fimm­tíu árum síðar

Sylvía Hall skrifar
Uppreisnin í Stonewall markaði kaflaskil í réttindabaráttu hinsegin fólks.
Uppreisnin í Stonewall markaði kaflaskil í réttindabaráttu hinsegin fólks. Vísir/Getty
Lögreglan í New York baðst í dag afsökunar á gjörðum sínum í hinni svokölluðu Stonewall uppreisn í júní árið 1969. Buzzfeed greinir frá.

Fimmtíu ár eru liðin frá því að lögreglumenn í New York réðust inn á LBGTQ-barinn Stonewall þann 28. júní og tilkynntu gestum að þeir ætluðu að ráðast til inngöngu. Sagði lögregla á þeim tíma að ástæðan væri sú að barinn starfaði ekki samkvæmt áfengislögum.

Gestir staðarins streittust á móti og leiddi það af sér átök dagana eftir á. Hundruð mótmæltu aðgerðum lögreglu sem varð til þess að margir voru handteknir og fjöldinn allur slasaðist.

„Ég held það væri óábyrgt af mér, nú þegar við göngum inn í alþjóðlegan mánuð hinsegin fólks, að ræða ekki atburðina sem áttu sér stað á barnum Stonewall í júní 1969,“ sagði James O‘Neill lögreglustjóri í ávarpi sínu í höfuðstöðvum lögreglunnar.

„Þó ég ætli ekki að standa hérna og láta sem ég sé sérfræðingur í því sem gerðist þá veit ég hvað hefði ekki átt að gerast.“

James O'Neill.Vísir/Getty
Hann segir aðgerðir lögreglu hafa einfaldlega verið rangar. „Aðgerðirnar og lögin voru bæði óréttlát og kúgandi og ég biðst afsökunar á því,“ sagði O‘Neill í ávarpinu.

Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir ávarp O‘Neill höfðu samtök hinsegin fólks í New York kosið með því að krefjast þess að lögreglan bæðist afsökunar á aðgerðum sínum í Stonewall uppreisninni. Þau sögðu mikinn árangur hafa náðst í samskiptum við  lögreglu í stjórnartíð O‘Neill en lögreglan ætti enn eftir að axla ábyrgð.

„Það að axla ábyrgð og biðjast afsökunar á þessum atburði er lítið en þýðingarmikið skref í átt að því að bæta stærri kerfislæg vandamál sem halda áfram að skaða samfélag hinsegin fólks, sérstaklega transfólks og fólks sem verður fyrir kynþáttafordómum,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.