Innlent

Bjarni og Guðlaugur ræða sendiherrakapal á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðlaugur Þór og Bjarni Benediktsson hafa staðfest að hafa átt óformlegan fund með Sigmundi Davíð þar sem hann greindi þeim frá áhuga Gunnars Braga á sendiherrastöðu.
Guðlaugur Þór og Bjarni Benediktsson hafa staðfest að hafa átt óformlegan fund með Sigmundi Davíð þar sem hann greindi þeim frá áhuga Gunnars Braga á sendiherrastöðu.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra munu á morgun mæta á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna sendiherrakapals sem var til umræðu á barnum Klaustri í desember á síðasta ári.

Fundurinn hefst klukkan 10.30 á morgun og er opinn fulltrúum fjölmiðla og almenningi á meðan húsrúm leyfir en fundurinn verður haldinn í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti 8-10.

Tilefni fundarsins er umræða um mögulega skipan Gunnars Braga Sveinssonar, þingmann Miðflokksins, í embætti sendiherra en í hinum frægu Klausturupptökum heyrist hann lýsa því að Bjarni og Guðlaugur Þór þurfi að ganga frá skipan hans í sendiherraembætti. Hann eigi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra á Washington. Sagðist Gunnar Bragi hafa fundað með Bjarna vegna málsins.

Eftir að upptökurnar voru gerðar aðgengilegar sagði Gunnar Bragi að ekkert væri til í þessari frásögn. Síðar var þó staðfest að Bjarni og Guðlaugur Þór hafi fundað með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, um áhuga Gunnars Braga á að starfa á erlendum vettvangi. Bjarni lét þó hafa eftir sér að hann liti ekki svo á að Sjálfstæðisflokkurinn væri í skuld vegna skipans Geirs H. Haarde sem sendiherra.

Til stóð að ræða málið á opnum fundi nefndarinnar fyrir jól en ekkert varð af þeim fundi. Auk Bjarna og Guðlaugs voru Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi boðaðir á þann fund en þeir svöruðu ekki fundarboðum nefndarinnar.

Bein útsending verður frá fundinum á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis á dreifikerfum Símans og Vodafone. Fundinum verðus streymt hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×