Innlent

Svöruðu ekki í­trekuðum fundar­boðum stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefndar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Ekkert verður af opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefjast átti klukkan 10 í dag vegna þess að hvorki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, né Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, svöruðu ítrekuðum fundarboðum nefndarinnar.

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir í samtali við Vísi að opna fundinum verði frestað og reynt að hafa hann í janúar þegar þing kemur saman á ný eftir jólahlé.

Sjá einnig: Óvíst hvort Sigmundur og Gunnar Bragi mæti á nefndarfund um sendiherrakapal

Hún segir það mjög leitt að þingmennirnir hafi ekki svarað fundarboðum. Einnig voru þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, boðaðir á fundinn. Segir Helga Vala að þeir hafi svarað boðinu strax.

Á opna fundinum átti að ræða fund þeirra Sigmundar Davíðs, Guðlaugs Þórs og Bjarna um áhuga Gunnars Braga á því að gegna sendiherrastöðu.

Á upptökunum af samræðum þingmanna á Klaustur Bar heyrast Gunnar Bragi og Sigmundur halda því fram að Gunnar Bragi hafi fengið vilyrði fyrir því að hann fengi sendiherrastöðu í skiptum fyrir að hafa skipað Geir H. Haarde sendiherra í Bandaríkjunum í utanríkisráðherratíð sinni.

Guðlaugur Þór og Bjarni hafa þó neitað því að Gunnar Bragi eigi eitthvað inni hjá Sjálfstæðisflokknum eftir þá skipan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.