Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann muni ræða um afskipti rússneskra stjórnvalda að bandarísku forsetakosningunum árið 2016 þegar hann fundar með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Helsinki um miðjan júlímánuð. Trump segist einnig ætla að ræða um ástandið í Sýrlandi og Úkraínu.
Fundurinn í Helsinki verður fyrsti leiðtogafundur Trump og Pútín frá því að Trump tók við embætti þó að þeir hafi áður átt óopinbera fundi í tengslum við fjölmenna alþjóðlega leiðtogafundi.
„Við munum ræða um Úkraínu, við munum ræða um Sýrland. Við munum ræða um kosningar. Við viljum ekki að neinn hafi áhrif á framkvæmd kosninga,“ sagði Trump við fjölmiðla í gær.
Í frétt SVT kemur fram að bandarískar öryggisstofnanir hafi áður lýst því yfir í skýrslum að forsetinn rússneski hafi gefið fyrirmæli um að reynt yrði að hafa áhrif á niðurstöðu bandarísku kosningarnar. Þá hefur Robert Mueller, sérstakur saksóknari, rannsakað hvort Rússar hafi verið í samskiptum við teymi Donalds Trump í kosningabaráttunni.
Trump og Pútín hafa þó báðir lýst því yfir að Rússar hafi ekki reynt að hafa áhrif á kosningarnar. Trump segist þó ætla að taka upp málið í Helsinki. „Ég mun ræða við hann um allt.“

