Þrýstingur er á forráðamönnum ensku úrvalsdeildarinnar að hefja óháða rannsókn út í framkvæmd Moss við dóminn á fyrri vítaspyrnunni.
Moss ráðfærði sig lengi við aðstoðardómarann Eddie Smart áður en hann dæmdi vítaspyrnu á Loris Karius fyrir að fella Harry Kane í teignum. Sjálft brotið hjá Karius er þó ekki það sem er í umræðunni, heldur hvort Dejan Lovren hafi gert Harry Kane réttstæðan í aðdraganda brotsins.
Moss náðist á upptöku segja „Martin, sérðu eitthvað af sjónvarpsupptökum?“ í eyra sér við martin Atkinson, fjórða dómara leiksins og er það ástæða ólgunnar því dómarar mega ekki notfæra sér sjónvarpsupptökur nema þegar formlegir myndbandsdómarar eru að störfum, sem enn hefur ekki verið reynt í úrvalsdeildinni.
Félag dómara, PGMO, hefur gefið lítið fyrir þessi ummæli og sagt að þau hafi verið mismæli. Þá sagði Geoff Shreeves, fjölmiðlamaður sem var að vinna á leiknum fyrir Sky Sports, að Atkinson hafi ekki haft neinn aðgang að sjónvarpsskjám.
„Það þarf að hefja nákvæma rannsókn hvers vegna Moss hafi talað við fjórða dómarann um sjónvarpsupptöku. Þeir geta ekki bara sópað þessu frá sem mismælum,“ sagði Hackett.
Þá hefur Hackett einnig verið hávær í mótmælum dómsins þar sem Kane hafi verið rangstæður. Lovren kom við boltann áður en hann barst til Kane, sem gerði Englendinginn réttstæðann að mati Moss og þeirra sem telja dóminn réttan. Hins vegar er regluverk frá löggjafarvaldi fótboltans, International Football Association Board, sem segir leikmann rangstæðan ef hann „framkvæmir aðgerð sem hefur áhrif á getu andstæðingsins til þess að leika boltanum.“
Hackett vill meina að þar sem Kane hafi verið rangstæður hafi hann haft áhrif á sparkgetu Lovren og því orðið til þess að hinn síðarnefndi hitti boltann illa svo hann féll fyrir Kane.
„Við erum með fjölmarga dómara um allan heim sem eru ekki sammála um túlkun rangstæðureglunnar. Við þurfum að fá skýringu frá IFAB um hvernig reglan á að vera túlkuð,“ sagði Hackett.