Erlent

Mótmælendur loka vegum í Barcelona

Atli Ísleifsson skrifar
Fjórir mótmælendur hið minnsta hafa verið handteknir í dag.
Fjórir mótmælendur hið minnsta hafa verið handteknir í dag. Getty/Alex Caparros
Stuðningsmenn sjálfstæðis Katalóníu á Spáni hafa lokað fjölda vega í sumum hlutum héraðsins í dag vegna fundar spænsku ríkisstjórnarinnar sem haldinn er í Barcelona.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar að halda fund í katalónsku höfuðborginni var ætlað að draga úr spennu milli stjórnarinnar í Madríd og héraðsstjórnar Katalóníu. Nokkrir mánuðir eru síðan nokkrir leiðtogar Katalóna voru dæmdir til fangelsisvistar vegna ákvörðunar Katalóna að lýsa yfir sjálfstæði héraðsins á síðasta ári.

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, og Quim Torra, forseti katalónsku héraðsstjórnarinnar, sammæltust í gær um að stofna til „skilvirkrar umræðu“ sín á milli.

BBC  segir frá því að mótmælendur hafi látið loka um tuttugu vegum, meðal annars hraðbrautunum AP7 og A2.

Lögregla í Barcelona hefur verið með mikinn viðbúnað vegna ríkisstjórnarfundarins. Fjöldi mótmælenda kastaði í morgun ýmsu lauslegu í átt að öryggislögreglu þar sem hún reyndi dreifa mótmælendum.

Fjórir mótmælendur hið minnsta hafa verið handteknir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×