Puigdemont var handtekinn á bensínstöð nærri Schleswig í norðurhluta Þýskalands um helgina. Hann er eftirlýstur af spænskum stjórnvöldum fyrir uppreisnartilburði og hlutverk sitt í sjálfstæðishreyfingu Katalóníu. Hann var á leiðinni frá Finnlandi þar sem hann var á fundi samtaka vina Katalóníu og var förinni heitið til Belgíu þar sem hann er í sjálfskipaðri útlegð. Der Spiegel greinir frá því að Spænsk stjórnvöld hafi útvegað Þýsku lögreglunni ítarleg gögn um ferðir Puigdemont.
Talið er að að minnsta kosti 89 manns hafi slasast í fjölmennum mótmælum í Katalóníu á Spáni í gær þar sem þúsundir mótmæltu því að Puigdemont hefði verið handtekinn í Þýskalandi. Mótmælendurnir slösuðust í átökum við lögreglu og þá voru fjórir handteknir.
Dómararnir taka sinn tíma
Forsetinn fyrrverandi dvaldi næturlangt í Neumünster fangelsinu en hann kom fyrir dómara í dag þar sem formleg kennsl voru borinn á hann en þýsk stjórnvöld hafa allt að 60 daga til að ákveða hvort hann verður framseldur til Spánar. Þýski lögspekingurinn Nikolaos Gazeas segir það ólíklegt að dómstólar klári málið fyrir Páska.„Í evrópskri handtökuskipun kemur fram að ákvörðun verði að liggja fyrir innan 60 daga. Í undantekningartilfellum, og það eru alltaf undantekningar, er hægt að víkka út þennan tímaramma. En við ættum ekki að gera ráð fyrir því að ákvörðun verði tekin í þessari eða næstu viku. Sérstaklega er ekki auðvelt að svara spurningunni um gagnkvæmt refsinæmi. Þess vegna held ég að dómararnir í Slésvík-Holtsetalandi muni taka sér þann tíma sem þeir þurfa til að taka ákvörðun.“
Puigdemont á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisvist fyrir þau meintu brot sem hann er ákærður fyrir á Spáni, þar á meðal landráð. Níu aðrir leiðtogar sjálfstæðissinna Katalóníu sitja í fangelsi. Fimm aðrir eru í útlegð. Á föstudaginn úrskurðaði Hæstiréttur Spánar að ákæra ætti 25 leiðtoga héraðsins fyrir landráð, fjárdrátt og að hlýða ekki skipunum ríkisins.