Enski boltinn

„Gylfi er búinn að vera frábær fyrir Everton“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki. vísir/getty
Michael Keane, miðvörður Everton og samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar, telur að vopnabúr liðsins í sóknarleiknum eigi eftir að hjálpa lærisveinum Stóra Sam að klifra enn hærra upp töfluna.

Everton-liðið er í níunda sæti með 27 stig eftir skelfilega byrjun á tímabilinu en ein ástæða þess að liðinu gengur svona vel, að mati Keane, er frammistaða Gylfa Þórs.

„Gylfi er búinn að vera fyrsta flokks,“ segir Keane sem hrósar einnig Oumar Niasse og nýjasta liðsmanninum Theo Walcott sem hefur farið vel af stað með Everton.

Gylfi skoraði sjötta mark sitt á tímabilinu á móti Crystal Palace síðastliðinn laugardag og segir Keane íslenska landsliðsmanninn vera frábæran og stöðugan í sínum leik.

„Hann er búinn að skora nokkur mikilvæg mörk á þessari leiktíð. Hann hefur verið frábær. Gylfi býr yfir svo miklum gæðum og er leikmaður sem alltaf er hægt að treysta á að spili vel í hverri einustu viku,“ segir Michael Keane.

Gylfi og félagar eru í fríi þessa helgina þar sem þeir eru úr leik í bikarnum en þeir snúa aftur 24. febrúar þegar að liðið mætir Watford í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×