Erlent

Hóteleigandi lagði Trump

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Starfsmenn hótelsins voru ekki lengi að fjarlægja nafn Trump af hótelinu.
Starfsmenn hótelsins voru ekki lengi að fjarlægja nafn Trump af hótelinu. Vísir/AFP
Aðaleigandi lúxushótels í Panamaborg fer nú aftur með stjórn byggingarinnar eftir að honum tókst að leggja The Trump Organization, sem hafði farið með rekstur hótelsins, fyrir þarlendum dómstólum.

Innan örfárra klukkustunda frá dómsuppkvaðningunni fjalægðu starfsmenn hótelsins nafn Trump af byggingunni. Kýpverski kaupsýslumaðurinn Orestes Fintiklis hefur á síðustu misserum barist hatrammlega fyrir því að slíta samningi sínum við The Trump Organization.

Eins og nafnið gefur til kynna var það stofnað af Donald Trump, sem nú er forseti Bandaríkjanna, en hann hætti afskiptum af fyrirtækinu eftir að hann tók við embætti. Börn hans, sem jafnframt eru helstu ráðgjafar forsetans, hafa þó ennþá puttana í því.

Kýpverski kaupsýslumaðurinn segir að þessi tengsl séu helsta ástæða þess að tekjur hótelsins hafi hrunið. Gestum hafi fækkað mjög eftir að Trump tók við embætti forseta fyrir rúmu ári. Hann hefur hins vegar tekið gleði sína á ný eftir að hafa lagt forsetafyrirtækið. „Panama hefur gert okkur stolt,“ er haft eftir honum á vef breska ríkisútvarpsins.

Fintiklis segist ætla að halda rekstri hótelsins áfram en nú undir öðru nafni. Hvað það nafn verður fylgir þó ekki sögunni. The Trump Organization hefur sagst ætla að áfrýja dómnum til hærra dómstigs.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.