Enski boltinn

Bláhærður Pogba sneri Manchester-slagnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Smalling og Paul Pogba fagna sigurmarkið Manchester United á móti Manchester City.
Chris Smalling og Paul Pogba fagna sigurmarkið Manchester United á móti Manchester City. Vísir/Getty
Í hálfleik benti ekkert til annars en að Manchester City myndi fagna Englandsmeistaratitlinum í leikslok, fyrir framan granna sína í Manchester United. City var 2-0 yfir og það eina sem United gat huggað sig við var að munurinn var ekki meiri.

Leikurinn var jafn fram að fyrsta markinu sem Vincent Kompany skoraði með þrumuskalla eftir hornspyrnu Leroys Sané á 25. mínútu. Fimm mínútum síðar sneri Ilkay Gündogan listilega á Nemanja Matic og skoraði framhjá David De Gea. City fékk frábær færi til að auka muninn á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks. Raheem Sterling slapp tvisvar sinnum einn í gegn en hitti ekki markið og Gündogan skallaði beint á De Gea í upplögðu færi. Allt kom þó fyrir ekki og staðan því 2-0 í hálfleik.

José Mourinho vann fyrir kaupinu sínu í hálfleik því United kom ákveðið til leiks í seinni hálfleik. Og aðalmaðurinn í endurkomunni var leikmaður sem er reglulega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í stóru leikjunum: Paul Pogba.

Svaraði fyrir sig

Frakkinn hefur verið mikið milli tannanna á fólki að undanförnu. Fréttir hafa borist af meintu ósætti hans og Mourinhos og svo er fjölmörgum umhugað um hárið á Pogba. Daginn fyrir leik greindi Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, svo frá því að félaginu hefði boðist að kaupa Pogba í janúarglugganum.

Pogba, sem var með bláa rönd í hárinu að þessu sinni, minnkaði muninn í 2-1 á 53. mínútu eftir laglega sókn gestanna. Tveimur mínútum síðar jafnaði Pogba svo metin með skalla eftir frábæra sendingu frá Alexis Sánchez. Þetta voru fyrstu mörk Pogba í ensku úrvalsdeildinni síðan 18. nóvember á síðasta ári.

„Ég og allir vitum að hann átti nokkra leiki þar sem hann spilaði ekki eins vel og hann getur. En hann er að bæta sig. Ég var ánægður með frammistöðu hans gegn Swansea og í dag voru hann, Nemanja Matic og Ander Herrera frábærir í 90 mínútur," sagði Mourinho eftir leikinn.

Á 69. mínútu kom sigurmark United. Sánchez tók þá aukaspyrnu og sendi boltann inn á vítateiginn á Chris Smalling sem skoraði með góðu skoti.

Sluppu með skrekkinn

City þjarmaði að United það sem eftir lifði leiks. Ashley Young slapp á einhvern óskiljanlegan hátt við að fá á sig vítaspyrnu, De Gea varði meistaralega frá Sergio Agüero og Sterling skaut í stöngina af stuttu færi. En inn vildi boltinn ekki og United fagnaði sigri. Hann kemur ekki í veg fyrir að City-menn verði Englandsmeistari en er mikilvægur fyrir sálartetur United-manna.

Í síðustu fjórum leikjum hefur United tvisvar komið til baka eftir að hafa lent 2-0 undir og tryggt sér sigur. Það er eitthvað sem lið undir stjórn Mourinhos höfðu ekki afrekað áður í ensku úrvalsdeildinni og það er eitthvað sem stuðningsmenn United hafa ekki séð síðan Sir Alex Ferguson var við stjórnvölinn.

„Ég vildi ekki tapa fyrir City. Þeir hefðu orðið meistarar með sigri og það hefði verið skelfilegt fyrir stuðningsmennina," sagði Pogba eftir leik. Þrátt fyrir misjafna frammistöðu hefur Frakkinn komið með beinum hætti að 14 mörkum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu; skorað fimm sjálfur og gefið níu stoðsendingar.

Eftir leikinn óskaði Mourinho Guardiola, sínum gamla fjandvini, til hamingju með Englandsmeistaratitilinn. Það ekki spurning hvort heldur hvenær City landar titlinum.

Tímabil koðnar niður

Það er þó hætt við því að þrátt fyrir frábæra frammistöðu og eftirminnilega spilamennsku verði tímabilið hálf endasleppt hjá City. Strákarnir hans Guardiola steinlágu fyrir Liverpool, 3-0, í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudaginn og fengu svo annan kinnhest í fyrradag. Þetta er í fyrsta sinn sem lið undir stjórn Guardiola fær á sig þrjú mörk í tveimur leikjum í röð.

„Við verðum að rífa okkur upp fyrir leikinn gegn Liverpool. Við erum atvinnumenn," sagði Guardiola eftir Manchester-slaginn.

„Þetta var sérstakur dagur fyrir United sem er synd. Við vorum hugrakkir í fyrri hálfleik og sköpuðum svo mörg færi. Við hefðum getað fengið vítaspyrnur í fyrri og seinni hálfleik en við verðum að bæta okkur," bætti Spánverjinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×