Innlent

Utanríkisráðherra: Skilaboð árásanna í Sýrlandi skýr

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór telur aðgerðir ríkjanna þriggja í Sýrlandi skiljanlegar.
Guðlaugur Þór telur aðgerðir ríkjanna þriggja í Sýrlandi skiljanlegar. VÍSIR/Andri Marinó
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að leita lausna í Sýrlandi eftir diplómatískum leiðum. Aftur á móti sé skiljanlegt að Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn hafi gripið til hernaðaraðgerða í ljósi alvarleika efnavopnaárásarinnar.

Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar gerðu loftárásir á skotmörk sem þeir teljast tengjast efnavopnum ríkisstjórnar Bashars al-Assad í Sýrlandi í nótt. Utanríkisráðherra segir íslensk yfirvöld og önnur Natóríki ekki hafa verið upplýst um áformin áður en Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá þeim í gær.

„Það eru auðvitað mikil vonbrigði að ekki hafi náðst pólitísk lausn í Sýrlandi og það hefur ítrekað verið reynt, síðast í þessari viku í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem Rússland beitti enn á ný neitunarvaldi sínu. Og þetta stríð er búið að geisa núna í sjö ár og þeir sem hafa fallið er svipaður fjöldi og íslenska þjóðin og milljónir lagt á flótta,” segir Guðlaugur Þór.

Neyð almennings sé gríðarleg og í ofanálag hafi stjórnarherinn í Sýrlandi margsinnis gerst sekur um að beita ólöglegum efnavopnum gegn almennum borgurum, nú síðast í borginni Douma fyrir nokkrum dögum, að sögn Guðlaugs Þórs. 

„Þessi vopn eru ómannúðleg og með öllu bönnuð samkvæmt alþjóðalögum og við höfum ítrekað fordæmt þau og það sé skiljanlegt við þessar aðstæður að Frakkland, Bretland og Bandaríkin hafi ákveðið að hefja afmarkaðar loftárásir og það er á staði sem geyma slík vopn og jafnframt senda þau skilaboð að notkun þeirra hafi afleiðingar í för með sér,” segir Guðlaugur.

Áfram sé brýnt að ná pólitískri lausn í málefnum Sýrlands og í því samhengi þurfi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að axla ábyrgð sína.

„Skilaboðin eru skýr, að það hafi afleiðingar í för með sér. Þeir sem verða fyrir mestum skaða eru almennir borgarar,“ segir Guðlaugur Þór.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.