Erlent

Rússar fullyrða að meirihluti flugskeytanna hafi verið skotinn niður

Kjartan Kjartansson skrifar
Franskt flugskeyti hefur sig á loft í nótt.
Franskt flugskeyti hefur sig á loft í nótt. Vísir/AFP
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að árásir vestrænna ríkja í nótt muni aðeins herða stjórn hans í að uppræta „hryðjuverk“ í landinu. Bandamenn hans Rússar fullyrða að sýrlenski herinn hafi skotið niður 71 af 103 flugskeytum Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands.

Leiðtogar vestrænna ríkja og Atlantshafsbandalagsins (NATO) hafa lýst yfir stuðingi við loftárásir bandalagsríkjanna þriggja á skotmörk sem tengjast efnavopnabúri Sýrlandsstjórnar sem hófust í nótt. Árásirnar eru viðbragð við efnavopnaárás sem vestræn ríki segja að Assad hafi staðið að baki í bænum Douma.

Reuters-fréttastofan segir að Assad hafi sagt Hassan Rouhani, forseta Írans, að árásirnar muni aðeins herða stjórn hans í baráttu sinni gegn uppreisnarmönnum. Rouhani hafi á móti heitið honum áframhaldandi stuðningi.

Rússar, hernaðarlegir bandamenn Assad í borgarastríðinu, fullyrða að enginn hafi fallið í árásunum í nótt og að sýrlenski stjórnarherinn hafi náð að skjóta niður meirihluta eldflauga ríkjanna þriggja. The Guardian segir að ekki sé hægt að staðfesta þær fullyrðingar að svo komnu máli.

Sprengingar heyrðust í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, skömmu eftir ávarp Donalds Trump Bandaríkjaforseta þar sem hann tilkynnti um árásirnar.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefur sagt að árásirnar muni gera mannúðarástandið í Sýrlandi enn verra og sakað ríkin þrjú um ofbeldi. Rússar muni krefjast neyðarfundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Hann sakaði Bretar um að setja árásina í Douma á svið til að magna upp andúð á Rússum og gefa þeim átyllu til að ráðast á Sýrland.

Myndband AP-fréttastofunnar hér fyrir neðan virðist sýna flugskeyti á lofti yfir Damaskus í nótt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.