Enski boltinn

Solskjær hrósaði Pogba og De Gea: „Ein besta markvarsla sem ég hef séð“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba og Solskjær í leikslok.
Pogba og Solskjær í leikslok. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, bráðabirgðastjóri Manchester United, hrósaði Paul Pogba og David de Gea eftir 3-1 sigur á Huddersfield á öðrum degi jóla.

Leikurinn var fyrsti leikurinn undir stjórn Ole Gunnar á Old Trafford og hann er með tvo sigra í fyrstu tveimur leikjunum.

„Þetta var ekki besti leikurinn. Við vorum hægir fyrstu tuttugu mínúturnar en eftir það komumst við inn í leikinn og skoruðum frábær mörk,“ sagði norski stjórinn í samtali við Sky Sports í leikslok.

Rétt áður en að United skoraði annað markið þá átti spænski markvörðurinn, David de Gea, magnaða markvörslu og bjargaði United. Það breytti leiknum.

„Markvarslan var mikilvæg í leiknum. Þetta var ein besta markvarsla sem ég hef séð. Þetta var risa augnablik í leiknum,“ sagði Solskjær og snéri sér svo að Paul Pogba:

„Hann hefur þá eiginlega að geta skorað og getur einnig lagt upp eins og í síðasta leik. Ég var ánægður með hann í dag og hann er einnig sáttur.“

„Hann elskar fótbolta og elskar að fara fram á við. Hann er með stórt, stórt bros og ég nýt þess að vinna með honum,“ en allt virðist vera í blóma hjá United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×