Enski boltinn

Leikmaður Fulham gráti næst eftir leikinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk ekkert upp hjá Aleksandar Mitrovic upp við markið.
Það gekk ekkert upp hjá Aleksandar Mitrovic upp við markið. Vísir/Getty
Aleksandar Mitrovic fór illa með færin í jafntefli Fulham og Wolves í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Þótt ég hefði skotið hundrað sinnum í viðbót á markið þá hefði boltinn ekki farið inn,“ sagði Aleksandar Mitrovic við Sky Sports. Hann bar fyrirliðabandið hjá Fulham í annað skiptið á tímabilinu.

Aleksandar Mitrovic skaut átta sinnum að marki í leiknum en fjögur skota hans hittu markið. Hann var sérstaklega hættulegur í fyrri hálfleiknum þar sem hann reyndi sjö af átta skotum sínum.





„Ég spilaði góðan leik en ég skoraði ekki og það er mikilvægasta hlutverk framherjans,“ sagði Mitrovic.

„Ég er mjög vonsvikinn og reiður og mig langar helst að gráta. Svona er bara fótboltinn. Sumir dagar eru bara svona og þú verður bara að halda áfram,“ sagði Mitrovic. Sumir voru ekki alltof sáttir með þau ummæli.





Mitrovic hefur nú ekki skorað í síðustu sex leikjum sínum og þetta er í annað skiptið á tímabilinu þar sem hann skorar ekki í sex leikjum í röð.

Aleksandar Mitrovic er engu að síður búinn að skora 7 mörk í 19 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en fimm af þessum sjö mörkum hans komu í fyrstu sex leikjum tímabilsins.

Mitrovic skoraði síðast í 3-2 sigri á Southampton 24. nóvember síðastliðinn en hann skoraði þá tvö mörk. Seinna markið hans í leiknum var sigurmarkið. Fulham hefur ekki unnið leik síðan þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×