Erlent

Tveir líflátnir með hengingu í Japan

Atli Ísleifsson skrifar
Takashi Yamashita, dómsmálaráðherra Japans, ræddi við fjölmiðla fyrr í dag.
Takashi Yamashita, dómsmálaráðherra Japans, ræddi við fjölmiðla fyrr í dag. epa
Tveir dauðadæmdir fangar í Japan hafa verið líflátnir með hengingu. Frá þessu greindi Takashi Yamashita, dómsmálaráðherra Japans, fyrr í dag.

Alls hafa því fimmtán manns verið teknir af lífi í landinu á árinu og er fjöldinn sá næsthæsti frá því að tölur um líflátna voru gerðar opinberar árið 1998.

Hinir látnu voru sextíu og 67 ára gamlir og dæmdir til dauða árið 1988 fyrir að hafa myrt tvo menn og komið líkunum fyrir í steypu. Tilgangur morðanna var að stela jafnvirði 100 milljóna króna.

Á annað hundrað manna eru nú vistaðir á dauðadeild í japönskum fangelsum þar sem þeir bíða þess að dómi sé framfylgt.

Dauðarefsingar njóta stuðnings meðal japansks almennings þó að fjöldi mannréttindahópa hafa gagnrýnt refsingarnar. Dómsmálaráðherrann Yamashita varði dauðarefsingar á fréttamannafundi í morgun og sagði ekki vera hægt að komast hjá því að dæma fólk til dauða fyrir ákveðin illgjörn og viðbjóðsleg brot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×