Innlent

Inga hefur ekkert heyrt í Ólafi eða Karli Gauta

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins. vísir/vilhelm
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist ekkert hafa heyrt í þeim Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni eftir að stjórn flokksins skoraði á þá að segja af sér sem þingmenn flokksins og láta af öðrum trúnaðarstörfum. 

Þetta kemur fram í samtali Ingu við Vísi í morgun. Stjórn flokksins kemur saman til fundar klukkan 14 í dag þar sem næstu skref verða ákveðin.

Þeir Karl Gauti og Ólafur voru báðir viðstaddir umræður á Klaustur bar þar sem þingmenn Miðflokksins höfðu uppi óviðeigandi orð um Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins.

Stjórn Flokks fólksins kom saman til fundar síðdegis í gær. Karl Gauti og Ólafur viku af fundi stjórnarinnar eftir að þeir höfðu gert grein fyrir máli sínu. Við lok fundar sendi stjórn frá sér yfirlýsingu þar sem skorað var á þingmennina að segja af sér.

Á upptöku sem Stundin og DV birtu fyrst fréttir upp úr á miðvikudag var haft eftir Karli Gauta að Inga væri ekki starfi sínu vaxin. Hvorki hann né Ólafur gerðu athugasemdir þegar þingmenn Miðflokksins höfðu uppi stór og á tíðum klámfengin orð um Ingu.

Þeir Karl Gauti og Ólafur hafa báðir sagt að þeir hafi ekki sagt eitt sem gæfi tilefni til að þeir segi af sér þingmennsku.

Inga segist eiga von á því að Karl Gauti, sem á sæti í stjórn flokksins, mætir til fundarins á eftir, enda hafi hann fengið boð um slíkt líkt og aðrir stjórnarmenn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.