Erlent

Bandaríkin blása lífi í allar viðskiptaþvinganirnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bandaríkjaforseti tilkynnti í maí að hann myndi rifta kjarnorkusamningnum við Íran.
Bandaríkjaforseti tilkynnti í maí að hann myndi rifta kjarnorkusamningnum við Íran. Vísir/Ap
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur í hyggju að endurvekja allar þær viðskiptaþvinganir sem hún lagði á Íran, áður en kjarnorkusamningurinn svokallaði var undirritaður árið 2015.

Trump lýsti því yfir í maí síðastliðnum að Bandaríkin myndu segja sig frá samningum, sem hann hefur lýst sem gölluðum og skaðlegum.

Viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna eru sagðar til þess fallnar að lama marga af grunnatvinnuvegum Írana, eins og skipa- og bankastarfsemi auk olíuframleiðslu. Auk þess munu aðgerðirnar ná yfir alþjóðleg fjármálaviðskipti erlendra fjármálastofnanna við seðlabanka Írans. Þvinganirnar munu taka gildi á mánudag, degi fyrir þingkosningarnar vestanhafs.

Áður hafði Bandaríkjastjórn kynnt til sögunnar þvinganir gegn bílaiðnaði landsins auk þess sem steinn var lagður í götu gull- og annarra málmviðskipta við Írani.

Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írani fyrir þremur árum. Í því fólst að Íranir takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn þeim.

Barack Obama, þáverandi forseti Bandaríkjanna, taldi að samningurinn myndi koma í veg fyrir að Íranir þróuðu kjarnorkuvopn og að það minnkaði líkurnar á kjarnorkustríði í heiminum. Trump hefur aftur á móti haldið því fram að samkomulagið sé „hræðilegt“ og „einhliða“.  


Tengdar fréttir

Bandaríkin hóta evrópskum stórfyrirtækjum

Donald Trump er reiðubúinn að beita viðskiptaþvingunum gegn evrópskum fyrirtækjum sem munu halda áfram að eiga viðskipti í Íran eftir að Bandaríkin sögðu sig úr kjarnorkusamningnum við ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×