Erlent

Imelda Marcos sakfelld fyrir spillingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Imelda Marcos var forsetafrú Filippseyja á 8. og 9. áratugnum.
Imelda Marcos var forsetafrú Filippseyja á 8. og 9. áratugnum. Vísir/EPA
Dómstóll á Filippseyjum hefur sakfellt Imeldu Marcos, fyrrverandi forsetafrú landsins, fyrir spillingu og dæmt hana í fangelsi. Marcos var meðal annars alræmd fyrir að eiga um þúsund skópör þegar hún var forsetafrú.

Málið gegn Marcos, sem er 89 ára, tengist því að hún millifærði um 200 milljónir dollara á reikninga svissneskra félagasamtaka þegar hún átti var ríkisstjóri höfuðborgarinnar Manila, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hún var dæmd í sex til ellefu ára fangelsi fyrir hvert þeirra sjö brota sem hún var sakfelld fyrir. Þá var henni bannað að gegna opinberu embætti en hún er þingmaður í fulltrúadeild filippseyska þingsins. Hún er einnig á meðal frambjóðenda til ríkisstjóra í kosningum sem fara fram á næsta ári.

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Marcos sem var ekki viðstödd þegar dómurinn var kveðinn upp. Saksóknari segir að þrátt fyrir það geti Marcos áfram verið í framboði þar til máli hennar hefur verið áfrýjað til enda.

Ferdinand Marcos ríkti yfir Filippseyjum í 8. og 9. áratug síðustu aldar. Hann kom á herlögum í landinu árið 1972 og lét fangelsi og drepa þúsundir stjórnarandstæðinga. Honum var steypt af stóli í uppreisn sem herinn studdi árið 1986. Marcos-fjölskyldan hefur alla tíð siðan verið sökuð um spillingu. Forsetinn var sjálfur sakaður um að hafa dregið að sér meira en tíu milljarða dollara þegar hann var í embætti. Hann lést í útlegð árið 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×