Íslenski boltinn

Kaj Leo genginn í raðir Vals

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Færeyingurinn er farinn í Val.
Færeyingurinn er farinn í Val. vísir/eyþór

Kaj Leo í Bartalsstovu er genginn í raðir Vals í Pepsi-deild karla í fótbolta en hann kemur til Hlíðarendafélagsins frá ÍBV.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu Valsmanna en færeyski vængmaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning við Íslandsmeistara Vals.

Hann kom fyrst til lands til þess að spila með FH en gekk í raðir ÍBV fyrir sumarið 2017 þar sem að hann er búinn að spila undanfarin tvö sumur.

Kaj Leo á að baki fimm mörk í 47 leikjum í Pepsi-deild karla en hann skoraði tvö mörk í 22 leikjum á síðustu leiktíð. Hann hefur skorað öll mörkin sín í efstu deild fyrir ÍBV.

Færeyingurinn var aftur á móti stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar í sumar með níu stoðsendingar í 22 leikjum. Hann lagði upp einu marki meira en nú samherji hans, Kristinn Freyr Sigurðsson. Þá átti hann sjöttu flestu lykilsendingarnar (52) og kom flestum sendingum (261) inn í vítateig andstæðinganna.

Hann ætti að smellpessa inn í sókndjarft lið Vals sem er nú þegar búið að bæta við sig öðrum öflugum kantmanni í Birni Snæ Ingasyni sem kom til Vals frá Fjölni á dögunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.