Innlent

Framsóknarráðherrar afkomendur bóndakonu en sjálfstæðismenn Þórunnar „ríku“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Íslendingabók hefur tekið stakkaskiptum en ættfræðivefurinn vinsæli fær um 140 þúsund heimsóknir á mánuði. Karlalandsliðið í fótbolta og íslenska ríkisstjórnin eru komin af sömu konunni sem var lausaleiksbarn biskups á Hólum.

Íslendingar hafa löngum haft gaman af því að rekja saman ættir sínar sem hægt er að gera með einföldum hætti á Íslendingabók. en nú geta notendur bætt við myndum, æviágripum og öðrum upplýsingum um sig og forfeður sína sem fallnir eru frá í gagnagrunninn.

Til gamans hafa starfsmenn rakið saman ættartré ráðherra ríkisstjórnarinnar og í ljós kom að sameiginleg ættmóðir allra ráðherra Framsóknarflokksins var Ragnhildur Arnbjörnsdóttir, bóndakona á Hamraendum í Borgarfirði. (Engum sögum fer af henni en bóndi hennar var sagður ráðsettur og frómur.) Guðrún „eldri“ Ellertsdóttir frá Reykjahlíð í Mývatnssveit er sameiginleg ættmóðir ráðherra Vinstri grænna en ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru allir komnir af Þórunni „ríku“ Jónsdóttur á Reykhólum.

Við skoðun ættartrés ríkisstjórnarinnar eins og hún leggur sig kemur í ljós að sameiginleg ættmóðir allra ráðherra er Steinunn Guðbrandsdóttir í Svartárdal, en hún var lausaleiksbarn Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum.

Þess má geta að Steinunn er líka sameiginleg ættmóðir íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Breytingarnar á vefnum verða formlega kynntar á fræðslufundi íslenskrar erfðagreiningar á morgun.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.