Erlent

Bólivía dæmd til að vera áfram landlukin

Kjartan Kjartansson skrifar
Evó Morales, forseta Bólivíu, var ekki skemmt þegar úrskurður dómstólsins var kveðinn upp.
Evó Morales, forseta Bólivíu, var ekki skemmt þegar úrskurður dómstólsins var kveðinn upp. Vísir/EPA
Alþjóðasakamáladómstóllinn batt enda á rúmlega aldargamla deilu Síle og Bólivíu um hluta Kyrrahafsstrandarinnar sem Bólivíumenn töpuðu í stríði ríkjanna á 19. öld. Niðurstaðan þýðir að Bólivía verður áfram landlukt ríki.

Síle sigraði Bólivíu í stríði ríkjanna árið 1884 og lagði þá undir sig um 120.000 ferkílómetra lands, þar á meðal um 400 kílómetra af strandlengju sem hafði verið eini hluti Bólivíu sem lá að sjó. Bólivíumenn hafa æ síðan gert tilkall til þess að Sílemenn veiti þeim aðgang að hafinu. Halda þeir því meðal annars fram að það hamli efnahagslegum vexti að vera upp á Síle komnir með vöruflutninga sjóleiðina.

Bólivísk stjórnvöld fóru með deiluna fyrir Alþjóðasakamáladómstólinn í Haag árið 2013 og kvað hann upp úrskurð sinn í gær. Samkvæmt dómnum ber Sílemönnum engin skylda til að semja við Bólivíumenn um aðgang að sjó. Úrskurðurinn er endanlegur og bindandi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Evó Morales, forseti Bólivíu, er engu að síður ekki af baki dottinn og heitir því að Bólivía muni aldrei gefast upp í deilunni. Sebastián Piñera, forseti Síle, fagnaði hins vegar úrskurðinum og lagði áherslu á að landi hans bæri engin skylda til að semja við nágrannana. Dómarinn í málinu sagðist hins vegar vona að ríkin gæti náð einhvers konar samkomulagi með vilja beggja.

Þrátt fyrir fjarlægðina frá hafinu heldur Bólivía út litlum sjóher og fagnar degi hafsins á hverju ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.