Fótbolti

Kolbeinn fær nýjan þjálfara

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Nantes
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Nantes Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson er kominn með nýjan knattspyrnustjóra hjá franska liðinu Nantes. Fyrrum leikmaður félagsins tók við stjórn þess í dag.

Nantes hefur farið illa af stað í frönsku deildinni og var knattspyrnustjórinn Miguel Cardoso látinn fara. Vahid Halilhodzic tók við starfi hans í dag.

Cardoso var ráðinn í sumar og undir hans stjórn náði Nantes aðeins í sex stig úr átta deildarleikjum. Halilhodzic var framherji Nantes á gullaldartímum félagsins á níunda áratug síðustu aldar. Hann stýrði PSG í Meistaradeild Evrópu árið 2005 en hefur ekki unnið í Frakklandi síðan.

Síðasta starf Halilhodzic var landsliðsþjálfarastaða Japan, hann var rekinn úr því starfi eftir að hafa komið liðinu á HM 2018.

Kolbeinn var í frystikistunni hjá Cardoso og var settur á sölulista í sumar. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland í rúmlega tvö ár þegar hann kom inn sem varamaður gegn Belgum í Þjóðadeild UEFA. Hann fær nú tækifæri til þess að komast aftur inn í lið Nantes undir stjórn nýs þjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×