Erlent

Bandaríkin hætta að veita samkynja mökum starfsmanna SÞ vegabréfsáritanir

Samúel Karl Ólason skrifar
Einungis 25 ríki í heiminum leyfa hjónabönd samkynhneigðra og þau eru bönnuð samkvæmt lögum í 71 ríki.
Einungis 25 ríki í heiminum leyfa hjónabönd samkynhneigðra og þau eru bönnuð samkvæmt lögum í 71 ríki. Getty/Justin Sullivan
Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ákveðið að hætta að veita samkynja mökum erlendra erindreka og starfsmanna Sameinuðu þjóðanna vegabréfsáritanir. Breytingarnar tóku gildi í gær og hefur fólkinu sem um ræðir verið gefinn frestur til 1. desember að ganga í hjónaband, verða sér út um nýja áritun eða yfirgefa Bandaríkin.

Með þessu er verið að fella niður reglu frá árinu 2009. Einungis 25 ríki í heiminum leyfa hjónabönd samkynhneigðra og þau eru bönnuð samkvæmt lögum í 71 ríki.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir, samkvæmt BBC, að sambönd verði að vera skilgreind samkvæmt lögum þeirra ríkja sem fólkið er frá. Án þess sé ekki hægt að sannreyna að um maka sé að ræða.



Samantha Power, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, tjáði sig um málið á dögunum og sagði breytinguna vera óþarflega grimmilega og byggja á þröngsýni. Þá bendir hún á að einungis tólf prósent ríkja Sameinuðu þjóðanna leyfi hjónabönd samkynhneigðra.

Samkynja pör gætu gripið til þess ráðs að gifta sig í Bandaríkjunum. Það gæti þó leitt til þess að þau yrðu handtekin þegar þau færu aftur til sýns heima.

Foreign Policy Magazine segir að breytingin muni hafa áhrif á minnst tíu starfsmenn Sameinuðu þjóðanna. Það er að þau þurfa að gifta sig eða missa maka sína úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×