Erlent

„Túrtappaskattur“ felldur niður í Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Í um átján ár hefur sérstakur tíu prósenta skattur verið lagður á túrtappa, dömubindi og aðrar hreinlætisvörur þar sem þau eru ekki skilgreind sem nauðsynlegar vörur.
Í um átján ár hefur sérstakur tíu prósenta skattur verið lagður á túrtappa, dömubindi og aðrar hreinlætisvörur þar sem þau eru ekki skilgreind sem nauðsynlegar vörur. Vísir/Getty
Yfirvöld Ástralíu hafa ákveðið að fella niður skatta á tíðavörur kvenna eftir áralanga herferð gegn skattinum. Í um átján ár hefur sérstakur tíu prósenta skattur verið lagður á túrtappa, dömubindi og aðrar hreinlætisvörur þar sem þau eru ekki skilgreind sem nauðsynlegar vörur.

Allan þann tíma hafa konur barist gegn skattinum og bent á að aðrar vörur eins og smokkar, sólarvörn og jafnvel Viagra séu skilgreindar sem nauðsynlegar og því nái skatturinn ekki yfir þær. Konur hafa ætíð sagt skattinn ósanngjarnan.

Breytingarnar munu kosta ríkið rúma tvo milljarða króna á ári, um 30 milljónir ástralska dala. Samkvæmt ABC í Ástralíu hefur ríkisstjórn landsins þó ekki áhyggjur af því. Áætlað er að einhverjir mánuðir séu í að breytingarnar taka gildi en ekki er búið að ákveða nákvæmlega hvaða vörur verða skilgreindar sem nauðsynlegar og verður það gert í samráði við yfirvöld stakra ríkja Ástralíu.



Konur hafa fagnað ákvörðuninni vel. Rochelle Courtenay, stofnandi samtaka sem börðust gegn túrtappaskattinum og söfnuðu hundrað þúsund undirskriftum gegn honum fyrr á þessu ári sagði málið ekki vera til komið vegna peninga. Þetta væri spurning um jafnrétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×