Innlent

Hæstiréttur staðfestir að Arion skuli greiða húsfélagi 162 milljónir króna

Atli Ísleifsson skrifar
Langalína 2 er í Garðabæ.
Langalína 2 er í Garðabæ. Mynd/Já.is
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Arion banki skuli greiða húsfélaginu í Löngulínu 2 í Garðabæ 162 milljónir í skaðabætur vegna galla í klæðningu á húsinu. Þá skuli bankinn greiða fjórar milljónir króna til viðbótar í málskostnað.

Húsfélagið höfðaði á sínum tíma mál gegn bankanum, Garðabæ og byggingarstjóra húsins vegna galla sem húsfélagið taldi vera á húsinu sem er steinsteypt sex hæða hús með 48 íbúðum.

Ris ehf var upphaflegur húsbyggjandi og seldi flestar íbúðir hússins til Riss fjárfestingar ehf. Nafni þess félags var síðar breytt í Löngulínu 2 ehf. Eftir hrun bankanna í október 2008 yfirtók forveri Arion banka, Nýi Kaupþings banki hf., Löngulínu 2 ehf., en þá var fasteignin fokheld. Langalína 2 ehf. hélt svo áfram byggingu hússins sem lauk á haustdögum 2010.

Dómstólarnir féllust á rök húsfélagsins að Arion banki hafi í raun verið eigandi hússins frá 9. október 2008 og ráðið öllum framkvæmdum við húsið eftir að félagið var yfirtekið af forvera Arion banka. Þá taldi húsfélagið að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við skipulags- og byggingarlög, lög um brunavarnir og að ekki hafi verið farið eftir byggingarreglugerðum. Húsið hafi því ekki verið byggt samkvæmt viðurkenndum aðferðum og verið haldið verulegum göllum þegar lokaúttekt þess fór fram. Arion hafi borið ábyrgð á því.

Þurfti að ráðast í miklar viðgerðir

Dómkvaddur matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að verktaki hefði við klæðningu hússins notast við brennanlega plasteinangrun í stað steinullareinangrunar, glertrefjanet í stað stálnets og að þykkt múrskeljar væri víðast hvar of lítil. Frágangur við glugga hafi sömuleiðis verið óviðunandi.

Húsfélagið þurfti að ráðast í miklar viðgerðir og komst héraðsdómur að því að þeirri niðurstöðu að tjónið væri á ábyrgð Arion banka sem ekki hafi tekist að hnekkja mati hins dómkvatta matsmanns.


Tengdar fréttir

Arion dæmt til að greiða húsfélagi 162 milljónir

Arion þarf að greiða húsfélaginu í Löngulínu 2 í Garðabæ 162 milljónir í skaðabætur vegna galla á húsinu. Garðabæ og byggingarstjóra hússins sem einnig var stefnt voru sýknuð af kröfum húsfélagsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.