Erlent

Þýskur ferðamaður traðkaður af fíl í Simbabve

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 82 þúsund fílar eru í Simbabve og eru þeir einungis fleiri í Botsvana en þar eru um 130 þúsund fílar.
Um 82 þúsund fílar eru í Simbabve og eru þeir einungis fleiri í Botsvana en þar eru um 130 þúsund fílar. Getty/V. GIANNELLA
Þýskur ferðalangur lést eftir að fíll sem hún var að reyna að taka mynd af traðkaði á henni. Atvikið átti sér stað í Simbabve í gær í Mana Pools þjóðgarðinum en konan var í hópi ferðamanna og gekk hún að fílahjörð sem var þar einnig.

Konan var 49 ára gömul. Hún dó á sjúkrahúsi í gærkvöldi.

Embættismenn í Simbabve segja ekki ljóst hvers vegna dýrið hafi orðið styggt og málið sé til rannsóknar.

„Við biðjum fólk ávalt um að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá villtum dýrum,“ sagði talsmaður þjóðgarðastofnunar Simbabve, samkvæmt BBC.



Árásir fíla eru tíðar í Simbabve og þá sérstaklega þegar kemur að bændum. Þá dó leiðsögumaður sem fíll traðkaði til bana í Victora Falls garðinum í vesturhluta landsins í fyrra. Þar að auki dó annar maður í fyrra þegar hann reyndi að smala fílum til að ná góðri mynd af þeim.

Um 82 þúsund fílar eru í Simbabve og eru þeir einungis fleiri í Botsvana en þar eru um 130 þúsund fílar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×