Erlent

Yfirlögregluþjónn neitar sök um manndráp á Hillsborough

Kjartan Kjartansson skrifar
Réttarhöldin yfir Duckenfield og Mackrell eiga að hefjast í Preston í janúar.
Réttarhöldin yfir Duckenfield og Mackrell eiga að hefjast í Preston í janúar. Vísir/Getty

Fyrrverandi yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Suður-Jórvíkurskíri lýsti sig saklausan af ákæru um að hafa valdið dauða 95 stuðningsmanna Liverpool með vanrækslu í Hillsborough-slysinu í dag. Yfirmaður öryggismála á vellinum lýsti einnig yfir sakleysi þegar mál gegn þeim var tekið fyrir.

David Duckenfield stýrði lögregluaðgerðum í kringum undanúrslitaleik í ensku bikarkeppninni á Hillsborough-vellinum í Sheffield árið 1989. Níutíu og sex stuðningsmenn Liverpool létu lífið í miklum troðningi í annarri endastúku vallarins.

Fyrrverandi yfirlögregluþjónninn er ákærður fyrir að hafa valdið dauða 95 þeirra með meiriháttar vanrækslu. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt lífstíðardóm yfir höfði sér, að sögn The Guardian. Ákærur hafa ekki verið gefnar út vegna dauða eins stuðningsmanns sem lést af heilaskaða fjórum árum eftir slysið. Ástæðan er sú að árið 1989 var ekki hægt að ákæra vegna dauðsfalls sem átti sér stað meira en ári eftir meint brot.

Sakaður um að hafa vanrækt öryggisatriði fyrir leikinn

Graham Mackrell, fyrrverandi öryggisfulltrúi Sheffield Wednesday, neitaði einnig sök fyrir dómstóli í Preston. Hann er sakaður um að hafa borið ábyrgð á því að félagið hafi ekki samið við lögreglu um hvernig ætti að hleypa stuðningsmönnum Liverpool inn í stúkuna fyrir leikinn. Það stangaðist á við öryggisreglur félagsins fyrir völlinn.

Mikil örtröð myndaðist við snúningshlið utan við Leppings Lane-stúkuna þar sem flestir stuðningsmenn Liverpool áttu miða. Þegar í óefni stefndi opnaði lögregla hlið inn í stúkuna. Gríðarlegur troðningur myndaðist þá í stúkunni sem olli dauða hátt í hundrað manns.

Mackrell er einnig sakaður um að hafa ekki tryggt að nægilega mörg snúningshlið væru til staðar svo að ekki yrði til flöskuháls við þau á leikdegi. Hann gæti átt yfir höfði sér tveggja ára fangelsi og sekt.

Ákærur á hendur Norman Bettison, lögreglustjóra Suður-Jórvíkurlögreglunnar, voru felldar niður í síðasta mánuði. Hann var sakaður um að hafa logið að rannsakendum slyssins um viðbrögð lögreglunnar við slysinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.