Erlent

Ákærur gegn lögreglustjóra vegna Hillsborough felldar niður

Kjartan Kjartansson skrifar
Bettison hefur í gegnum tíðina verið sakaður um að hafa reynt að skella skuldinni á Liverpool-stuðningsmenn til að fegra hlut lögreglunnar í harmleiknum.
Bettison hefur í gegnum tíðina verið sakaður um að hafa reynt að skella skuldinni á Liverpool-stuðningsmenn til að fegra hlut lögreglunnar í harmleiknum. Vísir/EPA

Saksóknarar á Englandi hafa ákveðið að fella niður ákærur á hendur fyrrverandi yfirmanni lögreglunnar í Suður-Jórvíkurskíri vegna Hillsborough-slyssins. Hann var sakaður um að hafa logið að rannsakendum.

Norman Bettison var ákærður fyrir brot í starfi í fyrra. Hann var sakaður um að hafa gefið rannsakendum rangar eða misvísandi lýsingar á viðbrögðum lögreglu eftir slysið á Hillsborough-leikvanginum í Sheffield árið 1989.

Níutíu og sex stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Liverpool létust í miklum troðningi sem myndaðist í annarri endastúku vallarins þar sem undanúrslitaleikur ensku bikarkeppninnar var leikinn.

Ákærur á hendur fyrrverandi yfirmönnum lögreglunnar voru gefnar út í kjölfar þess að kviðdómendur í réttarrannsókn sem lauk árið 2016 komust að þeirri niðurstöðu að gróf vanræksla skipuleggjenda og lögreglu hafi verið ástæða þess að slysið átti sér stað.

Bettison hafði óskað eftir því að ákærurnar yrðu látnar falla niður en hann hefur alla tíð neitað að hafa gert nokkuð af sér. Taka átti mál hans fyrir dómi í dag en saksóknarar tilkynntu þá að málið hefði verið fellt niður, að því er segir í frétt The Guardian.

Lögreglumaðurinn hefur meðal annars verið sakaður um að hafa reynt að koma sökinni af því hvernig fór á stuðningsmenn Liverpool og ljúga til um hvernig slysið bar að, meðal annars með því að breyta yfirlýsingum lögregluþjóna sem voru við störf á Hillsborough.


Tengdar fréttir

Ábyrgðin var ekki hjá fótboltaaðdáendunum

Harmleikurinn á Hillsborough-leikvanginum í Sheffield árið 1989, þegar 96 manns tróðust undir og hundruð urðu fyrir meiðslum, var ekki brjáluðum fótboltabullum að kenna. Niðurstöður rannsóknar á slysinu voru birtar í gær.

Sex ákærðir vegna Hillsborough-harmleiksins

Yfirlögregluþjónn sem stjórnaði löggæslu þegar 96 stuðningsmenn Liverpool fórust á Hillsborough-vellinum árið 1989 er ákærður fyrir manndráp vegna grófrar vanrækslu. Fimm aðrir, lögreglumenn, lögmaður og yfirmaður hjá Sheffield Wednesday, eru einnig ákærðir fyrir önnur brot.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×