Erlent

Fór í ranga íbúð og skaut íbúann til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Botham Shem Jean.
Botham Shem Jean. Vísir/AP

Lögreglukona í Dallas í bandaríkjunum hefur verið ákærð fyrir manndráp. Amber Guyger skaut svartan mann til bana í fjölbýlishúsi sem þau búa bæði í eftir að hún gekk fyrir mistök inn í íbúð mannsins. Þar skaut hún hann til bana. Maðurinn hét Botham Shem Jean en Guyger sagðist hafa farið inn í ranga íbúð þegar hún tilkynnti atvikið.

Guyger var handtekin í gær en sleppt í kjölfarið gegn tryggingu. Skotárásin átti sér stað fimmtudaginn. Lögmenn fjölskyldu Jean höfðu kallað eftir handtöku Guyger og sögðu fáránlegt að hún gengi laus svo mörgum dögum eftir banaskotið.

Lögmennirnir héldu blaðamannafund í gær þar sem þeir sögðu hafa fært yfirvöldum ný sönnunargögn, vitni og myndbandsupptöku, en fóru ekki nánar út í hvað fælist í því.

S. Lee Merritt, einn lögmannanna, sagði um helgina að fjölskylda Jean væri ekki að krefjast þess að Guyger yrði fangelsuð án dóms og laga. Hins vegar kröfðust þau þess að komið yrði fram við hana eins og alla aðra sem talið væri að hefðu framið glæpi.

Ekki liggur fyrir af hverju Guyger skaut Jean til bana en hún hefur farið í lyfja og áfengispróf. Niðurstöður þess hafa ekki verið opinberaðar.

Allison Jean, móðir mannsins sem var skotinn til bana, hefur velt því fyrir sér hvort að kynþáttur Jean hafi komið að sögu.

„Ef þetta hefði verið hvítur maður, hefði þetta farið öðruvísi? Hefði hún brugðist öðruvísi við?“ hefur AP fréttaveitan eftir Allison Jean.

Merritt segir ljóst að svartir eigi undir högg að sækja þegar komi að löggæslu í Bandaríkjunum.

„Við þurfum enn að eiga við að svart fólk er skotið á handhófskenndan hátt, að keyra svart, að ganga svart og nú þurfum við að bæta við; að lifa svart,“ sagði Merritt, samkvæmt CNN.

Jean vann hjá PricewaterhouseCoopers og var með háskólagráðu frá Harding í Arkansas. Hann var ekki á sakaskrá og var 26 ára gamall.

Mike Rawlings, borgarstjóri Dallas, sendi frá sér tilkynningu í gær sem sjá má hér að neðan. Þar þakkar hann Texas Rangers lögreglunni, fyrir að rannsaka málið, og sömuleiðis íbúum borgarinnar fyrir skilning á rannsóknarferlinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.