Erlent

Neyðarástand og rýmingar vegna Florence sem nálgast ört

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fellibylurinn Flórens á mynd sem var tekin frá Alþjóðlegu geimstöðinni í dag.
Fellibylurinn Flórens á mynd sem var tekin frá Alþjóðlegu geimstöðinni í dag. Vísir/Getty

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og nokkur svæði hafa verið rýmd á austurströnd Bandaríkjanna vegna fellibylsins Florence sem mun ganga á land í lok vikunnar.

Ríkisstjóri Suður-Karólínu hefur fyrirskipað að öll strandlengja ríkisins verði rýmd og þá hefur neyðarástandi verið lýst yfir í mörgum ríkjum, þar á meðal Norður-Karólínu, Virginíu- og Marylandríki. Fellibylurinn Florence, sem skilgreindur var sem annars stigs fellibylur í morgun, stækkar nú ört og var orðinn að fjórða stigs fellibyl í kvöld. Vindhraði í fellibylnum hefur náð allt að 54 metrum á sekúndu.

Spár gera ráð fyrir að Florence gangi á land við strendur Karólínuríkjanna á fimmtudag og muni þá ná fimmta stigi. Mikil flóðahætta er talin standa af fellibylnum.Þá er talið að Florence verði einn umfangsmesti fellibylur sem gengur yfir svæðið í áratugi. Síðast gekk fjórða stigs fellibylur á land við strendur Karólínuríkjanna árið 1989. Sá olli milljarðatjóni og 49 dauðsföllum.

Viðbragðsaðilar á svæðinu undirbúa sig flestir undir hið versta. „Einhverjir munu verða fyrir skelfilegu tjóni ef spár um þennan fellibyl ganga eftir,“ var haft eftir veðurfræðingnum Dan Miller í dag. Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti aflýst kosningafundi sem halda átti í Mississippi á föstudag vegna fellibylsins. Trump tísti um óveðrið í kvöld og biðlaði til fólks á svæðinu að koma sér í öruggt skjól.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.