Lífið

Grande tjáir sig um andlát Millers í fyrsta sinn: „Við töluðum um þetta, svo oft“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Miller og Grande á góðgerðartónleikum í Manchester, stuttu eftir hryðjuverkaárásina sem gerð var á tónleikum hennar þar í borg.
Miller og Grande á góðgerðartónleikum í Manchester, stuttu eftir hryðjuverkaárásina sem gerð var á tónleikum hennar þar í borg. Vísir/Getty

Söngkonan Ariana Grande tjáði sig í fyrsta sinn um andlát rapparans Macs Millers, sem lést úr ofneyslu eiturlyfja í síðustu viku, á Instagram-reikningi sínum í dag. Grande og Miller voru par í tvö ár áður en þau tilkynntu um sambandsslit sín í maí síðastliðnum.

„Ég dýrkaði þig frá því ég hitti þig fyrst þegar ég var nítján ára og ég mun gera það alla tíð. Ég trúi ekki að þú sért ekki hérna lengur. Ég næ ekki utan um það. Við töluðum um þetta. Svo oft,“ skrifar Grande.

„Ég er svo reið, ég er svo leið, ég veit ekki hvað ég á að gera. Þú varst dýrmætasti vinur minn. Svo lengi. Ofar öllu öðru. Mér þykir svo fyrir því að ég hafi ekki getað lagað eða fjarlægt sársaukann. Mig langaði virkilega til þess.“

Grande hefur þurft að þola mikið áreiti frá aðdáendum Millers eftir að fregnir bárust af andláti hans. Grande var sökuð um að hafa verið valdur að dauða Millers vegna þess hversu fljótt hún tók saman við grínistann Pete Davidson. Grande og Davidson trúlofuðu sig snemma í sumar, skömmu eftir að Grande tilkynnti um sambandsslit sín og Miller.

Grande lýkur svo færslunni með hinstu kveðju til Millers.

„Besta, yndislegasta sálin með djöfla sem hann átti aldrei skilið að draga. Ég vona að þér líði vel núna. Hvíldu þig.“

Grande hafði áður brugðist við andláti Millers en hún birti mynd af honum á Instagram-reikningi sínum skömmu eftir að hann lést. Enginn texti fylgdi þó myndinni og er þetta því í fyrsta sinn sem eitthvað er haft eftir Grande vegna andlátsins.


Tengdar fréttir

Ariana Grande minnist Mac Miller á Instagram

Bandaríska poppsöngkonana Ariana Grande setti í dag mynd af rapparanum Mac Miller á Instagram-síðu sína, en hann lést í gær. Talið er að rekja megi andlátið til þess að Miller hafi innbyrt of stóran skammt fíkniefna.

Rapparinn Mac Miller látinn

Bandaríski rapparinn Mac Miller, lést í dag á heimili sínu í San Fernando Valley í nágrenni Los Angeles.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.