Erlent

Bráðavaktarleikkona skotin til bana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vanessa Marquez í hlutverki hjúkrunarfræðingsins Wendy Goldman.
Vanessa Marquez í hlutverki hjúkrunarfræðingsins Wendy Goldman. Vísir/Getty
Bandaríska leikkonan Vanessa Marquez, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt sem hjúkrunarfræðingurinn Wendy Goldman í Bráðavaktinni, ER, var skotin til bana af lögreglu í Kaliforníuríki á fimmtudag. Þetta hefur bandaríska fréttastofan CNN eftir lögreglu.

Lögregla var kölluð að fjölbýlishúsi í borginni Pasadena síðdegis að staðartíma á fimmtudag. Hafði lögreglu borist tilkynning um að mögulega væri ekki allt með felldu í íbúð Marquez.

Marquez var við slæma andlega heilsu þegar lögreglu bar að garði og er sögð hafa fengið ítrekuð flog. Þegar reynt var að hlúa að henni brást hún skyndilega ókvæða við og dró fram skammbyssu. Lögregla skaut Marquez þá til bana. Síðar kom í ljós að leikkonan bar ekki skammbyssu heldur loftriffil.

Marquez fór með hlutverk hjúkrunarfræðingsins Wendy Goldman í þáttunum Bráðavaktinni árin 1994-1997. Þættirnir voru sýndir á Ríkissjónvarpinu um árabil og eru landsmönnum mörgum kunnugir. Þá lék Marquez einnig í hinum gríðarvinsælu Seinfeld-þáttum og kvikmyndinni Stand and Deliver.

Í umfjölluninni um andlát Marquez hér að neðan má sjá nokkrar Bráðavaktarstiklur þar sem hjúkrunarfræðingurinn Goldman kemur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×