Innlent

Tilefni til að rannsaka veikindakostnað starfsmanna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar segir tilefni til að rannsaka kostnað vegna veikinda starfsmanna borgarinnar. Hann segir langvarandi álag á vinnustað valda veikindum.

Í kvöldfréttum á föstudaginn fjölluðum við um að kostnaður borgarinnar, vegna langtímaveikinda starfsmanna í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum, nemi rúmlega 350 milljónum króna á hálfu ári.

Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar segir að vandinn eigi við um fleiri svið borgarinnar en skóla- og frístundasvið.

„Við höfum heyrt þetta áður. Þetta hefur verið skoðað en kannski ekki nægilega djúpt. Við verðum vör við þetta, ekki bara á þessu sviði heldur á fleiri sviðum. Það má segja að kostnaðurinn komi að einhverju leyti betur fram á ákveðnum sviðum,“ segir Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins benti á kostnaðinn í vikunni.

„Þó það standi ekki hverjar ástæðurnar séu þá er líklegt að þetta sé vegna álags sem fólk er að mæta. Það eru lág laun, mikið álag, mannekla,“ segir Sanna Magdalena.

„Það má segja að það vanti rannsókn á þessu, orsök og afleiðingum. Það hefur gjarnan verið talað um að langvarandi álag á vinnustað valdi veikindum. Ég held að það sé þekkt sannindi,“ Segir Garðar.

Þá segir hann að tilefni sé til að rannsaka mögulegar ástæður að baki veikinda starfsmanna.

„Ég held að þessi frétt, þessar athugasemdir borgarfulltrúans gefi tilefni til þess að menn kafi ofan i þetta og skoði raunverulega ástæðurnar að baki þess að veikindi hafi aukist hjá borginni,“ segir Garðar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.