Innlent

María skipuð forstjóri Sjúkratrygginga Íslands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
María Heimisdóttir tekur við embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands þann 31. október næstkomandi.
María Heimisdóttir tekur við embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands þann 31. október næstkomandi. Mynd/Stjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Maríu Heimisdóttur forstjóra Sjúkratrygginga Íslands til næstu fimm ára. María tekur við embættinu af Steingrími Ara Arasyni, núverandi forstjóra, þegar hann lætur af störfum 31. október næstkomandi. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.

María lauk embætt­is­prófi í lækn­is­fræði frá Há­skóla Íslands árið 1990. Hún stundaði fram­halds­nám í Banda­ríkj­un­um, lauk MBA námi frá Uni­versity of Conn­ecticut árið 1997 með áherslu á stjórnun í heilbrigðisþjónustu, og síðan doktors­námi í lýðheilsu­fræðum (PhD), sam­hliða vinnu við kennslu og rann­sókn­ir, frá Uni­versity of Massachusetts árið 2002.

María hefur frá árinu 2010 verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala en hafði áður veitt forstöðu upplýsinga- og hagdeild spítalans árin 2006 – 2010. Árin 1999 til 2002 starfaði María hjá Íslenskri erfðagreiningu við þróunarverkefni. María er klínískur lektor við lækna­deild Há­skóla Íslands, hefur birt vís­inda­grein­ar í inn­lend­um og er­lend­um fræðirit­um, sinnt aka­demísk­um leiðbein­anda- og próf­dóm­ara­störf­um og stundað kennslu á sviði stjórn­un­ar, lýðheilsu og klín­ískr­ar upp­lýs­inga­tækni, m.a. í lækna­deild og fé­lags­fræðideild HÍ.

Skipun ráðherra í embættið er í samræmi við tillögu stjórnar sjúkratrygginga en María var önnur tveggja úr hópi ellefu umsækjenda sem stjórnin taldi hæfasta til að gegna embættinu. Ráðherra ræddi við þessa tvo umsækjendur og tók í kjölfar þess ákvörðun sína um skipun í embættið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.