Stuart Pearce, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, spáir Liverpool sigri í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili eftir harða baráttu við Manchester City.
Bæði lið hafa unnið sína leiki við upphaf nýs tímabils en City vann deildina í fyrra á sama tíma og Liverpool hafnaði í fjórða sæti. Jürgen Klopp hefur styrkt liðið vel og ríkir bjartsýni á Anfield.
„Mín persónulega skoðun er að Liverpool verður meistari í ár. Þetta verður tveggja hesta kapplaup Liverpool og City og ég held að Liverpool verði rétt á undan,“ sagði Pearce í þættinum The Debate á Sky Sports í gærkvöldi.
„Ég sé að það er trú í hópnum sem ég hef ekki séð áður. Leikmennirnir eru líka hungraðir. Þeir töpuðu úrslitaleik Meistaradeildarinnar og menn eru sárir eftir það og hvernig það gerðist.“
„Liverpool vann heldur ekki deildina á síðustu leiktíð þannig það er eitthvað hungur í þeim. Liðið er að eltast við fyrsta Englandsmeistaratitilinn í áraraðir og þetta hungur á eftir að koma þeim yfir línuna,“ sagði Stuart Pearce.
Pearce: Hungrið í leikmönnum Liverpool á eftir að skila þeim titlinum
Tómas Þór Þórðarson skrifar
