Enski boltinn

Setti landsliðsskóna á hilluna til að spila með Wolves

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kilman (t.v.) í leik með varaliði Wolves
Kilman (t.v.) í leik með varaliði Wolves Vísir/Getty
Max Kilman gekk til liðs við nýliða Wolves í ensku úrvalsdeildinni á lokadegi félagsskiptagluggans fyrr í mánuðinum. Hann gæti þurft að setja landsliðsferil sinn á hilluna til þess að spila með Wolves.

Kilman er 21 árs og spilaði fótbolta með utandeildarliði Maidenhead United. Hann upplifði draum hvers ungs fótboltamanns þegar úrvalsdeildarlið Wolves ákvað að fá hann til sín í sumar. Hann gæti þó þurft að setja annan draum á hilluna og hætta að spila með enska landsliðinu í futsal.

Kilman á 25 landsleiki að baki með enska landsliðinu í futsal en hann byrjaði að spila futsal til þess að verða betri í fótbolta.

„Ég efast um að ég hafi tíma fyrir futsal núna því ég þarf að æfa á hverjum degi með Wolves,“ sagði Kilman í viðtali við breska blaðið Guardian. „Ég vil reyna að skipuleggja mig svo ég geti haldið áfram að spila fyrir England en það er erfitt og ég er ekki viss um að það takist.“

„Mér finnst það mjög leiðinlegt en þetta er eitthvað sem ég verð að gera til þess að verða atvinnumaður í fótbolta.“

Kilman var ekki í leikmannahópi Wolves í fyrstu tveimur leikjunum í úrvalsdeildinni.

Wolves mætir Englandsmeisturum Manchester City í hádegisleiknum á laugardaginn í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×