Tvö rauð í ótrúlegum leik í Bournemouth

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi var pirraður að hafa ekki klárað leikinn í lokin
Gylfi var pirraður að hafa ekki klárað leikinn í lokin Vísir/Getty
Everton og Bournemouth skildu jöfn í ótrúlegum leik þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft.

Eftir nokkuð atvikalausan fyrri hálfleik var Richarlison rekinn út af í liði Everton þegar fjórar mínútur voru til leikhlés. Hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir að skalla Adam Smith.

Þrátt fyrir að vera einum manni færri var það Everton sem komst yfir á 56. mínútu. Gylfi Þór Sigurðsson fann Cenk Tosun sem sendi boltann á Theo Walcott í teignum. Walcott skoraði undir pressu og kom Everton yfir.

Gylfi Þór var aftur á ferðinni tíu mínútum seinna. Hann sendi boltann inn í teiginn þar sem Michael Keane var mættur og skallaði boltann í netið.

Í millitíðinni hafði Adam Smith verið rekinn út af fyrir að brjóta á Theo Walcott og var orðið jafnt í liðum og útlit fyrir að Everton væri að fara að sigla heim sigri.

Á 75. mínútu braut Leighton Baines af sér innan vítateigs og Bournemouth fékk víti. Joshua King fór á punktinn og skoraði örugglega. Heimamenn fundu lyktina af endurkomunni og hún var fullkomnuð nokkrum mínútum seinna þegar Nathan Ake skoraði og jafnaði metin.

Gylfi Þór átti möguleika á því að stela sigrinum fyrir Everton á tólftu mínútu uppbótartímans en skot hans fór rétt framhjá markinu. Jafntefli niðurstaðan en bæði lið enn ósigruð í deildinni.

Maguire fagnar marki sínu í uppbótartímavísir/getty
Leicester vann tíu menn Southampton með sigurmarki frá Harry Maguire í uppbótartíma.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komst Southampton yfir með glæsimarki frá Ryan Bertrand á 52. mínútu. Gestirnir frá Leicester jöfnuðu hins vegar fjórum mínútum seinna með marki frá Demarai Gray.

Pierre-Emile Hojbjerg var rekinn út af á 77. minútu þegar hann fékk sitt seinna gula spjald. Heimamenn voru við það að ná að hanga á jafnteflinu þar til enski landsliðsmaðurinn Maguire skoraði af rúmlega 20 metra færi þegar örfáar sekúndur voru eftir af uppbótartímanum.

Í Huddersfield gerðu heimamenn markalaust jafntefli við nýliða Cardiff. Jonathan Hogg fékk að líta rauða spjaldið í seinni hálfleik og voru gestirnir einum manni færri í rúman hálftíma.

Aron Einar Gunnarsson var ekki með Cardiff vegna meiðsla.

Úrslit dagsins:

Wolves - Manchester City 1-1

Bournemouth - Everton 2-2

Southampton - Leicester 1-2

Huddersfield - Cardiff 0-0

Arsenal - West Ham 3-1

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira