Erlent

Stefnir bandaríska landamæraeftirlitinu vegna farsíma

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Síminn sem um ræðir var af tegundinni iPhone.
Síminn sem um ræðir var af tegundinni iPhone. Vísir/Getty
Farsími bandarískrar konu var gerður upptækur þegar hún sneri heim til Bandaríkjanna úr ferðalagi til Sviss. Hún hefur nú höfðað mál gegn landamæraeftirliti Bandaríkjanna en það voru fulltrúar á vegum þess sem gerðu síma hennar upptækan.

Rejhane Lazoja, sem er bandarískur múslimi, var stöðvuð á Newark flugvellinum í New Jersey þar sem hún býr. Þar báðu landamæraverðir hana meðal annars um að opna fyrir þeim símann sinn, sem hún neitaði að gera. Þá var síminn gerður upptækur.

Samkvæmt skjölum sem lögð hafa verið fram í málinu var iPhone-sími Lazoja í umsjá landamæraeftirlitsins í yfir 120 daga áður en honum var skilað aftur til eiganda síns. Þá segir Lazoja að eftirlitsstofnunin hafi ekki viljað svara því hvort gögn á síma hennar hafi verið afrituð eða ekki.

Í skjölunum kemur einnig fram að í símanum hafi mátt finna einkaskilaboð milli Lazoja og lögmanns hennar, auk ljósmynda af Lazoja þar sem hún er ekki klædd svokölluðum hijab, sem er höfuðklútur, en í þeirri trú sem Lazoja aðhyllist mega karlmenn ekki sjá konur án slíks klúts, nema þeir séu skyldir konunum.

Að lokum kemur fram í málssókninni að hvorki hafi verið rökstuddur grunur, né hafi legið fyrir leitarheimild til þess að skoða símann. Það sem gerðist sé því skýlaust brot á fjórða viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, en hann á að tryggja að ekki sé hægt að ganga á rétt borgara til friðhelgi einkalífs síns nema nægjanlegar vísbendingar um saknæmt athæfi liggi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×