Árásarmaðurinn hét David Katz og var 24 ára gamall frá Baltimore í Maryland-ríki. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu beitti hann skammbyssu við verknaðinn. Fleiri eru ekki grunaðir um aðild að árásinni.
Sjá einnig: Heyra mátti upphaf skotárásarinnar í beinni útsendingu: „Allir voru grátandi og öskrandi“
Árásin var gerð á tölvuleikjamóti í afþreyingarmiðstöðinni Jacksonville Landing þar sem keppni stóð yfir í tölvuleiknum Madden 2018. Samkvæmt óstaðfestum heimildum fjölmiðla vestanhafs reiddist Katz eftir að hafa tapað leik á mótinu og hóf skothríð.
Katz tók reglulega þátt í tölvuleikjamótum á borð við það sem haldið var í Jacksonville í gær og gekk þar undir nafninu „Bread“. Hann virðist hafa unnið Madden Bills tölvuleikjamótið í fyrra, ef marka má tíst ameríska fótboltaliðsins Buffalo Bills.
Congrats to David Katz, the Madden 17 Bills Championship winner!
— Buffalo Bills (@buffalobills) February 27, 2017
Thanks for following along, Bills fans. https://t.co/YHJHzlFElc pic.twitter.com/incdEhLxkT
Mikil ringulreið skapaðist þegar Katz hóf skothríð á tölvuleikjamótinu í gær en því var streymt beint á netinu. Upphaf árásarinnar náðist á myndbandi sem var dreift víða á samfélagsmiðlum í gær.
Mannskæðar skotárásir hafa verið tíðar í Flórída síðustu ár. 49 létust í skotárás á skemmtistaðinn Pulse í Orlando árið 2016 og 17 létust í árásinni á Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann í Parkland í febrúar síðastliðnum.