Erlent

Argento missir dómarasætið í X Factor í hendur fyrrverandi eiginmanns síns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Asia Argento á Cannes-verðlaunahátíðinni í maí síðastliðnum.
Asia Argento á Cannes-verðlaunahátíðinni í maí síðastliðnum. Vísir/getty

Ítalska leikkonan Asia Argento hefur verið rekin úr starfi sínu sem dómari í ítölsku útgáfu þáttaraðarinnar X Factor, að því er fram kemur á vef Variety. Ákvörðun um brottreksturinn er tekin í kjölfar þess að ungur leikari sakaði Argento um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi árið 2013.

Variety hefur eftir heimildarmönnum sínum að sjónvarpsstöðin Sky Italia, sem sýnir X Factor, og framleiðslufyrirtækið FremantleMedia Italia hafi ákveðið að Argento víki úr sæti sínu sem dómari þáttanna. Brottreksturinn gildir í þeim hluta X Factor sem sýndur er í beinni útsendingu.

Sjá einnig: Sjálfa uppi í rúmi, óstaðfest smáskilaboð og greiðsla frá Anthony Bourdain

Ítalskir áhorfendur munu því berja Argento augum í fyrstu sjö þáttum nýjustu seríunnar sem þegar hafa verið teknir upp. Bein útsending úr myndveri hefst svo 25. október næstkomandi en þá mun nýr dómari taka sæti Argento. Heimildir ítalskra fjölmiðla herma að sá verði ítalska poppstjarnan Morgan, fyrrverandi eiginmaður Argento.

Ítalska poppstjarnan Marco Castoldi, betur þekktur sem Morgan. Vísir/Getty

Dómarastarf Argento í þáttunum hefur staðið á brauðfótum síðan leikarinn Jimmy Bennett steig fram og sakaði Argento um að hafa brotið á sér kynferðislega á hótelherbergi í Kaliforníu árið 2013. Bennett var 17 ára þegar meint brot eiga að hafa átt sér stað en samræðisaldur í Kaliforníu er 18 ár.

Argento, sem er 20 árum eldri en Bennett, þvertekur fyrir að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Bennett. Hún viðurkennir hins vegar að hafa, ásamt þáverandi kærasta sínum Anthony Bourdain, greitt Bennett um 41 milljón íslenskra króna fyrir að þegja um atvikið.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.