Erlent

Lögregla rannsakar ásakanir unga leikarans á hendur Argento

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Asia Argento á Cannes-verðlaunahátíðinni í maí síðastliðnum.
Asia Argento á Cannes-verðlaunahátíðinni í maí síðastliðnum. Vísir/getty

Lögregla í Los Angeles hefur ásakanir um kynferðisofbeldi á hendur ítölsku leikkonunni Asiu Argento til rannsóknar. Argento er ein þeirra sem leitt hefur #MeToo-hreyfinguna frá því að henni var hleypt af stokkunum í fyrra.

Sjá einnig: Argento greiddi ungum leikara fyrir að þegja um meint kynferðisbrot

Greint var frá því í gær að bandaríski leikarinn Jimmy Bennett hefði sakað Argento um að brjóta á honum kynferðislega á hótelbergi árið 2013. Bennett var 17 ára þegar hin meintu brot eiga að hafa átt sér stað en Argento var 37 ára. Þá á Argento að hafa greitt Bennett nær 41 milljón íslenskra króna fyrir að þegja um brotin.

Lögreglustjórinn Darren Harris tjáði fjölmiðlum að rannsakendur muni reyna að ná tali af Bennett eða talsmönnum hans vegna ásakananna.

Asia Argento og Jimmy Bennett árið 2003. Með þeim á myndinni eru leikararnir og tvíburarnir Dylan og Cole Sprouse. Vísir/Getty

Í gögnum málsins, sem bandaríska dagblaðið New York Times hefur undir höndum, segir að Bennett haldi því fram að hann hafi stundað kynlíf með Argento í umrætt skipti. Samræðisaldur í Kaliforníu er 18 ára. Þá segir Bennett að atvikið hafi haft neikvæð áhrif á starfsferil hans og valdið honum miklu sálrænu tjóni.

Argento hefur enn ekki tjáð sig um málið en erlendir fjölmiðlar sem fjallað hafa um ásakanirnar hafa ítrekað leitað eftir viðbrögðum frá henni. Bennett hyggst hvorki tjá sig frekar um gögn málsins né atvikið sjálft fyrr en í fyrsta lagi í dag, þriðjudag.

Argento og Bennett fóru með hlutverk mæðgina í kvikmyndinni The Heart Is Deceitful Above All Things árið 2004.

Argento steig fram nýverið og sakaði kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að hafa nauðgað sér á hótelherbergi árið 1997. Hún hefur síðan verið einn helsti forsprakki #MeToo-hreyfingarinnar, sem hlaut gríðarlegan meðbyr eftir að fjölmargar konur stigu fram og sökuðu Weinstein um kynferðisofbeldi.


Tengdar fréttir

„Cannes var veiðilenda fyrir Harvey Weinstein"

Leikkonan Asia Argento flutti tilfinningaþrungna ræðu á lokakvöldi kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, þar sem hún sagði frá því að Harvey Weinstein hefði nauðgað henni á hátíðinni fyrir rúmum 20 árum síðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.