Enski boltinn

Jürgen Klopp: Liverpool er eins og Rocky Balboa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp afslappaður með ungum stuðningsmanni Liverpool.
Jürgen Klopp afslappaður með ungum stuðningsmanni Liverpool. Vísir/Getty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir liðið sitt ekki vera eitt af þeim sigurstranglegustu í ensku úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

Liverpool raðaði inn mörkum á síðasta tímabili og komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Í sumar hefur liðið síðan styrkt sig með fjórum öflugum leikmönnum í þeim Naby Keita, Fabinho, Xherdan Shaqiri og markverðinum Alisson.

Leikmennirnir fjórir kostuðu 170 milljónir punda og það sem og gott gengi á undirbúningstímabilinu hefur kallað á mun meiri pressu. Nú búast flestir við að Liverpool berjist fyrir alvöru um enska meistaratitilinn.

„Við verðum að vera stöðugri og við vitum það. Við getum lagað margt í bæði sókn og vörn. Við þurfum að laga allt hjá okkur,“ sagði Jürgen Klopp. Sky Sports segir frá.

„Það verður ekki bara erfitt fyrir okkur að brúa bilið milli Manchester City og hinna liðanna. Það er erfitt fyrir alla,“ sagði Klopp.

Liverpool vann Manchester City þrisvar sinnum í öllum keppnum á síðustu leiktíð en endaði samt 25 stigum á eftir lærisveinum Pep Guardiola í ensku deildinni.

„Manchester City er enskur meistari, þeir misstu engan leikmann og fengu til sín [Riyad] Mahrez. Þeir eru því ekkert veikari. Við sáum það líka á móti Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn,“ sagði Klopp.

„Við erum ennþá Rocky Balboa en ekki Ivan Drago. Við erum enn þeir sem þurfa að gera meira og berjast meira. Það verður að vera okkar hugarfar,“ sagði Klopp.

Fyrsti leikur Liverpool á tímabilinu er á móti West Ham í hádeginu á sunnudaginn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.