Erlent

Binda enda á aldarfjórðungsgamla deilu

Þórir Guðmundsson skrifar

Ríkin í kringum Kaspíahaf skrifuðu í dag undir samkomulag um skiptingu hafsins milli þeirra. Með því binda þau enda á aldarfjórðungsgamla deilu.

Kaspíahafið er stærsta innhaf í heimi, umkringt Rússlandi, Kasakstan, Íran, Aserbædjan, og Túrkmenistan. Í því eru gífurlegar auðlindir, einkum olía og gas. Á fundi í Kasakstan í dag sömdu ríkin um skiptingu hafsins með áherslu á að þau ein njóti auðlinda þess.

Hasan Rouhani, forseti Írans sagði á fundinum að Kaspíahaf tilheyrði eingöngu löndunum við hafið.

„Uppbygging herstöðva til afnota fyrir erlend ríki, siglingar herskipa, flugmóðurskipa og kafbáta, yfirflug herflugvéla og jafnvel flutningur á farmi sem tilheyrir erlendum ríkjum er bannað með öllu,“ sagði hann.

Síðan Sovétríkin hrundu fyrir 26 árum hafa ríkin fimm deilt um skiptingu hafsins. Aserar hafa malað svart gull með vinnslu á olíu og gasi úr hafsbotninum síðan á nítjándu öld. Kasakar fóru að vinna olíu úr hafsbotninum upp úr aldamótum. Olíuleiðslur - þær sem eru til staðar núna og þær sem fyrirhugað er að leggja - valda stórpólitískum deilum um allan heim.

Þó að samningurinn frá í dag skipti sköpum um sambúð þessara ríkja þá náði hann samt ekki yfir eitt mál - sjálfan hafsbotninn þar sem olían er.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.