Innlent

Grindhvalavaða festist í Kolgrafafirði

Andri Eysteinsson skrifar
Grindhvalavaðan sést hér fyrir miðri mynd.
Grindhvalavaðan sést hér fyrir miðri mynd. Vísir/ Heiður Óladóttir

Eftir því var tekið fyrr í dag að grindhvalavaða hafði álpast inn í Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi. Óalgengt er að grindhvalir leiti inn í firði en í Kolgrafafirði eru þeir nú fastir líklega vegna sjávarstrauma.

Kallað var til björgunarsveitar og voru það björgunarsveitarmenn frá Klakki í Grundarfirði sem mættu á staðinn með tvo gúmmíbáta um sexleytið í kvöld.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, höfðu tilraunir þeirra til að koma hvölunum undir brúna yfir fjörðinn og út á haf gengið erfiðlega og kallað var eftir liðsauka frá sveitunum í kring.

Stuttu eftir að kallað var eftir liðsauka tókst þó að koma hvölunum undir brúnna. Að sögn Einars Strand, formanns svæðisstjórnar Landsbjargar á Snæfellsnesi, virtist sem að einn hvalanna hafi ákveðið að synda undir og vaðan hafi fylgt í kjölfarið.

„Það er svona þegar maður er búinn að ákveða að bæta í, þá bara gerist það“ sagði Einar í samtali við Vísi. Einar segir að um 10 manns hafi verið að störfum á 2 gúmmíbátum.

Mikill fjöldi fólks stóð á brúnni og fylgdist með aðgerðum björgunarsveitarinnar, lögregla var við brúna og hægði á umferð og gætti öryggis áhorfenda.

Einar sagði að þó að aðgerðum væri lokið eins og er væri aldrei að vita hvað vaðan gerir næst.

Kolgrafafjörður sem er næsti fjörður austan við Grundarfjörð var mikið í fréttum veturinn 2012-2013 vegna annars sjávardýrs, en þá varð í tvígang mikill síldardauði í firðinum sökum súrefnisskorts.

Grindhvalir eru ein algengasta hvalategundin á norðurslóðum og er þekkt hið svokallaða Grindardráp sem stundað er í Færeyjum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.